Fara í efni

Mercedes-Benz Actros valinn vörubíll ársins

Fréttir

Blaðamenn atvinnubíla frá 24 löndum völdu á dögunum Mercedes-Benz Actros Vörubíl ársins eða ,,Truck of the Year 2020". Þetta er í fimmta sinn sem Mercedes-Benz Actros hlotnast þessi heiður. Velgengni Actros hófst strax þegar bíllinn kom fram á sjónarsviðið 1997 og hlaut það sama ár þennan titil. Með samtals níu útnefningar er Mercedes-Benz sigursælasta merkið í baráttunni um ,,Truck of the Year” titilinn.

Í samræmi við reglur dómnefndarinnar er titillinn sæmdur þeim bíl sem leggur mest á vogarskálarnar í nýjungum sem hafa efnahagsleg eða öryggisleg áhrif, minnka kolefnisfótspor og bæta aðbúnað ökumanna bæði hvað varðar akstur og önnur þægindi.

Flaggskip Mercedes-Benz vörubíla, Actros, skoraði hærra en allir aðrir atvinnubílar sem voru í valinu. Flestar nýjungar í Actros eru þróaðar með það að markmiði að koma með áþreifanlegar framfarir fyrir ökumann, viðskiptavini og umhverfið. Nýi Mercedes-Benz Actros er með öll réttu svörin varðandi öryggi, þægindi og skilvirkni að mati dómnefndar. Þau eru í formi fjölmargra nýjunga, t.d. hafa flest stjórntæki og upplýsingaskjáir verið færðir á stafrænt form,  með starfræna virkni á  rofum og mælum, (MultiMedia Cockpit), myndavélar í stað hefðbundinna hliðarspegla, að hluta til sjálfvirkur akstur með “Active Drive Assist” og afar fullkomnu bremsuaðstoðarkerfi, Active Brake Assist 5 svo fátt eitt sé nefnt.