Fara í efni

Lúxusútgáfa af Land Cruiser 150

Fréttir

Grein af mbl.is

Það er kunn­ara en frá þurfi að segja að Land Cruiser jepp­arn­ir frá Toyota hafa um ára­tuga­skeið verið með þeim vin­sæl­ustu hér­lend­is, og læt­ur nærri að tala megi um trú­ar­brögð þegar dá­læti sumra á þess­um ágætu jepp­um er ann­ars veg­ar.

Flagg­skipið fram­an af var hinn stæðilegi Land Cruiser 100 og arftak­inn var svo Land Cruiser 200. Þetta eru með stærstu jepp­un­um á göt­un­um, með verðmiða í takt, og því sjálf­krafa stöðutákn. Til marks um vin­sæld­irn­ar má nefna að Land Cruiser 120 var á sín­um tíma mest seldi bíll­inn á Íslandi, sem eru fá­heyrðar vin­sæld­ir.

Til tíðinda dró þann 1. sept­em­ber síðastliðinn þegar meng­un­arstaðall­inn Euro 6 tók gildi fyr­ir bens­ín- og dísel­vél­ar í bíl­um. Toyota ákvað að bjóða ekki Land Cruiser 200 með vél­um sem upp­fylla nýja staðal­inn og þar af leiðandi er hann ekki leng­ur í boði meðal nýrra Toyota-bíla í Evr­ópu, og þar með talið hér á Íslandi.

Lúx­usút­gáfa fyr­ir land­ann af Land Cruiser 150

Aug­ljóst er að nokk­urt tóma­rúm myndaðist við þetta hjá Toyota á Íslandi og hinum hund­tryggu kaup­end­um og til að mæta viðvar­andi eft­ir­spurn eft­ir nýj­um og veg­leg­um Land Cruiser hef­ur Toyota á Íslandi riðið á vaðið og býður nú upp á sér­staka lúx­us-út­gáfu af 150-gerðinni, sem kall­ast ein­fald­lega Land Cruiser 150 Lux­ury. Land Cruiser 150 hef­ur þegar verið tek­inn til kost­anna hér í þessu blaði af und­ir­rituðum svo ekki skal eytt plássi í end­ur­tekn­ing­ar á sam­eig­in­leg­um þátt­um held­ur reynt að benda á sér­stöðu Lux­ury-út­gáf­unn­ar sér­stak­lega.

Óhætt er að segja að bíll­inn sé drekk­hlaðinn búnaði og þeir sem vilja hafa allt til alls fá hér nokkuð fyr­ir snúð sinn.

Meðal þess helsta sem ber þar að nefna eru JBL hljóm­flutn­ings­tæki, sem eru hreint framúrsk­ar­andi enda sjá hvorki fleiri né færri en 14 hátal­ar­ar um að skila tær­um og þétt­um hljómi í hlust­irn­ar. Ég ætla að fá að sletta hér og segja að „sándið“ er rosa­legt, og gild­ir einu hvar í bíln­um setið er. Sama er uppi á ten­ingn­um hvað varðar hita í sæt­um; farþegar í aft­ur­sæti sitja þar við sama bekk – ef svo má að orði kom­ast – og þeir sem fram í eru, því 150 Lux­ury er með hita í aft­ur­sæt­um og féll það vel í kramið hjá farþegum sem fengu far er bíll­inn var prófaður því þá var veru­lega hryss­ings­legt í veðri.

Mynd­ar­leg sóllúga er í þak­inu, rán­dýrt viðar­stýri, Blue Ray afþrey­ing­ar­kerfi (sem inni­held­ur niður­fell­an­leg­an skjá uppi í lofti fyr­ir farþega í aft­ur­sæti, veru­lega flott), og minn­is­still­ing­ar í öku­manns­sæti. Þá er hin óviðjafn­an­lega skriðstýr­ing, sem kall­ast Crawl Control – staðal­búnaður og það verður að minn­ast á þann stór­merki­lega búnað í svip. Þegar stillt er á Crawl Control tek­ur ökumaður bens­ín­fót­inn af petal­an­um og bíll­inn fikr­ar sig áfram, um leið og hann met­ur und­ir­lagið framund­an. Magnaður búnaður sem mjög gam­an var að reyna. Bíll­inn er þá með 100% læs­ingu á aft­ur­drifi og AVS loft­púðafjöðrun sem sér til þess að hann líði um á silkimjúku skýi, og eru þrjár still­ing­ar í boði varðandi hæð bíls­ins.

Kraft­ur­inn hefði að ósekju mátt vera meiri

Af fram­an­greindu blas­ir við að Land Cruiser 150 Lux­ury er þæg­inda- og munaðar­set­ur. Það er ekki í kot vísað í „hefðbundn­um“ 150-bíl en hér er upp­lif­un­in tek­in á annað stig.

Þó er það ekki svo að hvergi sé snögg­an blett að finna. Jepp­inn er til að mynda fer­lega seinn af stað, er heil­ar þrett­án sek­únd­ur upp í hundraðið og upp­takið er hvæs­andi áreynsla með held­ur tak­mörkuðu togi. Nú býst eng­inn við að jeppi af þessu tagi rjúki endi­lega af stað eins og sport­bíll, en samt ... Land Cruiser 200 rauk fyrr úr spor­un­um þegar slegið var í klár­inn, með vold­ugra vél­ar­hljóði, en spjó um leið út kolt­ví­sýr­ingi sem yf­ir­völd hryllti við. Þarna ligg­ur máske stærsti saknaðarþátt­ur­inn við 200-bíl­inn, en hann fæst ekki leng­ur nýr svo það þýðir ekki að fást um það.

Veld­ur hann titl­in­um?

Höf­um líka eitt í huga; flest­ir þeirra sem kaupa sér lúx­us-gerðir af til­tekn­um bíl vilja að það sjá­ist. Þannig eru lúx­us­bíla­eig­end­ur flest­ir inn­réttaðir. Það hefði verið ákjós­an­legt frá sjón­ar­hóli Toyota að geta boðið upp á Lux­ury-gerðina með sýni­leg­um út­lits­frávik­um frá öðrum 150-bíl­um. Öðru­vísi fram­grill hefði vita­skuld verið heppi­leg­asta leiðin til aðgrein­ing­ar, en eins og mál standa sést ekki mun­ur þegar bíll­inn sést til­sýnd­ar. Veg­far­end­ur þekkja 200-bíl­inn á færi, en ekki 150 Lux­ury.

Sem arftaki stærsta lúxusjepp­ans frá Toyota er því óvíst hvort 150 Lux­ury veld­ur hlut­verk­inu. En sem framúrsk­ar­andi vel bú­inn Land Cruiser 150 stend­ur hann vel fyr­ir sínu og rúm­lega það.

http://www.mbl.is/bill/domar/2016/03/21/thaegindasetur_sem_thyrfti_sma_aukaafl/