Frétt af mbl.is
Síðan fyrstu myndir tóku að kvisast út af nýjum millistærðarbíl Toyota, sem kallast C-HR, hefur töluverð eftirvænting ríkt eftir frekari upplýsingum.
Bíllinn, sem var fyrst frumsýndur sem hugmyndabíll í París árið 2014, er eiginlega í nýjum stærðarflokki, einhvers staðar á bilinu milli jeppa og fólksbíls og nafnið vísar til þess að þessi bræðingur rær á ný mið. Stafirnir í nafninu eru nefnilega stytting fyrir fullt nafn, sem er Coupé-High Rider.
Kunnuglegur bíll og framandi að sjá í senn
Þegar C-HR er skoðaður sést glögglega skyldleiki við nýjustu kynslóð flestra fólksbíla frá Toyota, alltént hvað framendann varðar. Yfirbyggingin er aftur á móti gerólík flestu sem áður hefur sést, hvort heldur er frá Toyota eða öðrum framleiðendum. Það segir sína sögu að framleiðandinn staðsetur bílinn á milli Toyota Auris TS og RAV4. Með þessu er stefnt að því ökumaður fái háa akstursstöðu án þess að aka stórum jeppa, um leið og bíllinn er lipur í akstri innan borgarmarkanna.
Helstu mál bílsins eru þau að hann er 4.360 mm á lengd, 1.795 mm á breidd og 1.555 mm á hæðina. Hjólhafið er 2.640 mm.
Forsala bílsins hefst víða í Evrópu strax í september og afhendingar fyrstu bíla verður rétt fyrir áramót.
C-HR verður svo frumsýndur með viðeigandi pomp og prakt á alþjóðlegu bílasýningunni í París í byrjun október næstkomandi, tveimur árum eftir frumsýningu bílsins á sama stað, eins og framar greindi.
http://www.mbl.is/bill/frettir/2016/08/25/loksins_myndir_af_innanrymi_c_hr/