Maserati var meðal þeirra sem tóku slaginn og kynnti sedan-bílinn Ghibli en hann er í stærðarflokknum fyrir neðan stóra bróður, Quattroporte, tilheyrir E-flokki og keppir þar við Audi A6, E-línuna frá Mercedes-Benz og 5-línuna frá BMW.
Reyndar sést bíllinn ekki fyrr en í blálok auglýsingarinnar en fram að því heyrist barnsrödd segja frá vondum risum sem löngum hafi verið til vandræða í heimi hér. Hvort téðir risar eru þýskættaðir er látið liggja á milli hluta en auðvelt er að geta sér til um við hverja er átt. Nú sé hins vegar komið að hinum smáu að rísa upp; lengi hafi þeir beðið og undirbúið sig og nú sé lag að láta til skarar skríða.
Öflugur akstursbíll
Hvort það er sannfærandi að setja lúxusbíl á borð við Maserati í hlutverk lítilmagna er svo sjálfsagt smekksatriði. Bíllinn er þó býsna vænlegur til aksturs. Hann er búinn 3.0 L vél, sem fáanleg er bæði í bensín- og dísilútgáfu sem skilar 330 hestöflum og togi sem nemur 500 Nm. Um skiptingu gíranna sér 8 þrepa sjálfskipting. Hámarkshraði er gefinn upp 285 km/klst og hann er 5,6 sekúndur upp í hundraðið segir í frétt á mbl.is
jonagnar@mbl.is