Fara í efni

Langdrægur Kia e-Soul kynntur í Genf

Fréttir

Nýr Kia e-Soul rafbíll verður kynntur á alþjóðlegu bílasýningunni í Genf í mars, en það er 100% rafbíll og hefur því engan útblástur. 
Þá er hann aflmeiri en forverinn enda með nýjustu gerð af rafhlöðu sem gefur meira afl og endingu.

Kia e-Soul verður í boði með 64 kWh rafhlöðu sem er með drægni upp á 452 kílómetra á einni hleðslu í blönduðum akstri. Rafhlaðan skilar bílnum 204 hestöflum og togið er alls 395 Nm sem er 39% meira en áður. Bíllinn fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 7,6 sekúndum. Nýtt CCS hleðslukerfi gerir það að verkum að aðeins tekur 42 mínútur að hlaða hann frá 20%-80% í hraðhleðslu.

Ný kynslóð e-Soul er talsvert breytt í hönnun frá forveranum Soul EV. Hönnun nýja bílsins er nútímaleg og flott og verður bíllinn búinn helsta tækni- og öryggisbúnaði frá Kia. Suður-kóreski bílaframleiðandinn hefur einnig bætt aksturseiginleika bílsins enn frekar.

Kia Soul EV hefur notið mikilla vinsælda síðan hann kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir fjórum árum. Ekki er búist við öðru en að arftaki hans e-Soul verði einnig vinsæll. Eins og forverinn verður e-Soul nettur fjölnotabíll og er hábyggðari en fólksbílar af svipaðri stærð sem þýðir að auðvelt er að stíga inn og út úr honum auk þess sem sætin eru há og útsýni gott. Bíllinn mun auka enn frekar breidd Kia í flokki hagkvæmra og umhverfismildra rafmagns og Plug-in Hybrid bíla. Það er því mikið að gerast hjá Kia í rafbílavæðingunni og augljóslega spennandi tímar framundan hjá suður-kóreska bílaframleiðandanum. Nýr Kia e-Soul er að sjálfsögðu með 7 ára ábyrgð frá framleiðanda eins og allir nýir Kia bílar.