Fara í efni

Land Cruiser 200 aftur í boði

Fréttir

Frétt af mbl.is

Það var áhuga­mönn­um um jeppa og lúx­us­bíla – nema hvort­tveggja væri – tals­vert áfall þegar út spurðist að vegna meng­un­arstaðals­ins Euro 6 væri ekki leng­ur unnt að bjóða upp á Toyota Land Cruiser 200 hér á landi.

Er vart of­mælt að halda því fram að harm­ur hafi verið að þeim kveðinn. Land Cruiser hef­ur verið ást­mög­ur ís­lensks jeppa­fólks um ára­tuga skeið og harðasti kjarni aðdá­end­anna lít­ur satt að segja frem­ur á bíl­inn sem trú­ar­brögð en bíl­teg­und. Það er út af fyr­ir sig ekki galn­ari átrúnaður er hver ann­ar; ham­ingj­an veit að feikinóg er til af kolgeggjuðum og eft­ir því skaðleg­um trú­ar­brögðum í henni ver­öld og Land Cruiser er ekki verri gull­kálf­ur en hver ann­ar. En það er allt önn­ur saga.

Í ljósi fram­an­greinds harms yfir brott­hvarfi nýrra Land Cruiser 200 þarf ekki að koma á óvart að kliður hafi farið um bæ­inn þegar út spurðist að Toyota í Kaup­túni hefði fengið nokkra bíla til lands­ins og því ástæða til að taka einn slík­an til kost­anna enda bíll­inn breytt­ur bæði að út­liti og innviðum. Óhætt er að segja að hann hafi vakið at­hygli á göt­um borg­ar­inn­ar enda sjá lærðir „krúser­ar“ sam­stund­is að út­litið er upp­fært ásamt því að bíll­inn skart­ar skoðun­ar­límmiða sem ber ár­talið 20.

Er hann virki­lega kom­inn heim? Gláp­ustuðull­inn var geysi­hár meðan rúntað var um göt­ur Reykja­vík­ur og ná­grenn­is.

Hófstillt­ar út­lits­breyt­ing­ar

Jú, ekki ber á öðru, þetta er glæ­nýr bíll. Eins og hauk­frán augu áhuga­fólks um Land Cruiser-jeppa (og þau er ótal­mörg hér á landi) nema þegar í stað er búið að breyta fram­grill­inu og þar með ásjónu bíls­ins. Aft­ur­ljós­in hafa líka fengið smekk­lega út­lits­upp­færslu og þarna liggja klók­indi hönnuða Toyota; hverju breyt­irðu til að flikka upp á ásýnd bíls án þess að breyta hon­um að telj­andi ráði? Jú, ein­mitt þessu tvennu fram­an­greindu. Einnig má nefna að húddið hef­ur fengið nýtt lag og gegn­um framrúðuna séð má lýsa því sem svo að tveir upp­hækkaðir hrygg­ir liggi frá stýris­hús­inu og langs­um fram að brún og milli þeirra séu skil eða dal­ur. Þetta gef­ur bíln­um stælt­an svip og var hann þó eng­inn au­kvisi fyr­ir. Að öðru leyti er hann í flestu að sjá eins og 200-bíll­inn sem við eig­um að venj­ast en það er sú kyn­slóð sem kynnt var til sög­unn­ar á því herr­ans ári 2007. Ann­ars er gam­an að geta þess að á þessu ári eru liðin heil 65 ár síðan Toyota kynnti fyrsta Land Cruiser­inn og fer vel á því að fá nokk­ur ein­tök af 200-bíln­um til lands­ins. Þeir sem ná að festa sér ein­tak geta litið á bíl­inn sem af­mæl­is­gjöf til þeirra sjálfra í til­efni af 65 ára af­mæli þessa vin­sæla og veg­lega jeppa.

Veg­legt inn­an­dyra en ein­faldað um of?

Að inn­an er Land Cruiser 200 sama óðals­setrið og við þekkj­um, hlaðinn búnaði og drifgetu að sama skapi. Hér er meðal ann­ars að finna Crawl Control-búnaðinn sem ger­ir Land Cruiser kleift að fikra sig – hrein­lega skríða – upp og áfram um veru­lega ójafn­ar og erfiðar aðstæður. Und­ir­ritaður reyndi búnaðinn í Land Cruiser 150 síðasta haust, meðal ann­ars eft­ir stór­grýtt­um ár­far­vegi, og þótti mikið til koma en ekki gafst færi á að reyna búnaðinn í 200-bíln­um sem hér er til skoðunar. Engu að síður þyk­ist ég nokkuð viss um að á vís­an sé þar að róa, með hliðsjón af því hvernig gekk síðast.

Efn­is­val er allt til stakr­ar fyr­ir­mynd­ar og má líka vera það fyr­ir verðmiðann. Nokkuð er búið að ein­falda viðmót öku­manns hvað tækja­búnað í stjórn­borðinu varðar og er það mest­an­part­inn vel. Þó reynd­ist þraut­in þyngri að finna leiðina til að til auka og minnka blástur­inn í miðstöðinni, nokkuð sem verður að blasa við hér á land­inu bláa.

Á vegi er Land Cruiser 200 það sem kalla mætti „mal­bikssnekkju“ því hann held­ur kúrs eins og djúprista kjöl­ur ríg­haldi hon­um við veg­inn, og þegar hann tek­ur stímið svíf­ur hann segl­um þönd­um. Þetta er að sönnu risa­stór bíll, þung­ur um um­fangs­mik­ill, en dúnd­ur­góð dísil­vél­in skil­ar feik­inægu afli til hjól­anna svo hann brun­ar af stað með þéttu, þungu og traust­vekj­andi vél­ar­hljóði sem staðset­ur sig ein­hvers staðar á milli lúx­ussnekkju og Panzer-skriðdreka.

Gæðastall­inn hár og það er upp­stigið reynd­ar líka

Það er því óhætt að segja að markið hef­ur að venju verið sett hátt í þess­um jeppa og gæðastaðall all­ur hár. En á meðan aðrir lúxusjepp­ar – nefni sem aug­ljóst dæmi Audi Q7 – hafa fikrað sig nær því að vera lúx­us­bíll og fjær því að vera jeppi er Land Cruiser 200 trúr upp­runa sín­um og þar af leiðandi refja­laus jeppi. Fyr­ir bragðið er tals­vert hátt að stíga upp í hann og út aft­ur og óvan­ir þurfa að leggja í tals­verða fyr­ir­höfn við að kom­ast inn og út. En fyr­ir alla þá sem lyfta fæti nokkuð átaka­laust er þetta ekki vanda­mál.

Eins og við er að bú­ast drekk­ur svona hlemm­ur þó nokkuð, einkum þegar haft er í huga hvaða lægðum nýir bíl­ar hafa verið að ná í eldsneytis­eyðslu á síðustu mánuðum og miss­er­um. Fyr­ir 15 árum hefði þótt stór­brotið af­rek að geta boðið upp á Land Cruiser 100 með eyðslu und­ir 18 lítr­um á hundraðið (þeir bíl­ar gleypa hálf­an þriðja tug­inn í inn­an­bæjarakstri) en í dag er öld­in önn­ur og viðmiðin eft­ir því breytt. Land Cruiser 200 er gef­inn upp með um 13 lítra í blönduðum akstri, und­ir­ritaður náði hon­um best í 16 lítr­ana en það var inn­an­bæjar með eyðslu­stýr­ing­una gang­setta milli bæj­ar­fé­laga. Þá er 3. sætaröðin þess­leg að helst hæf­ir börn­um og ung­ling­um; fóta­rýmið þar er held­ur tak­markað.

Hversu marg­ir Land Cruiser 200 bíl­ar liggja ná­kvæm­lega á lag­er hjá Toyota á Íslandi þekk­ir grein­ar­höf­und­ur ekki en ljóst má vera að ef þeir til­heyra sér­trú­ar­söfnuðinum áður­nefnda og eru af­lögu­fær­ir um 20 kúl­ur eða svo er hér fá­gætt tæki­færi til að fagna téðu 65 ára af­mæli. Land Cruiser ber ald­ur­inn nefni­lega framúrsk­ar­andi vel.

http://www.mbl.is/bill/domar/2016/10/18/hilmir_snyr_heim/