Fara í efni

Kröftugur endasprettur í nýskráningu nýrra fólksbíla

Fréttir

Það sem af er ári, eða til 19. desember, hafa verið nýskráðir 14.009 nýir fólksbílar. Framan af ári voru nýskráningar í takt við meðaltal síðastliðinna ára en nýskráningar tóku greinilegan kipp í nóvember og desember og eru umfram það sem tíðkast að jafnaði á þessum árstíma.

1. janúar –19. desember

Í nóvember voru nýskráðir alls 1.405 nýir fólksbílar sem er óvenjumikill fjöldi fyrir mánuðinn og meira en hefur sést á undanförnum árum. Það sem af er desember hafa 1.156 nýir fólksbílar verið nýskráðir sem er einnig mesti fjöldi sem sést hefur í nýskráningum í mánuðinum líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Aukning nýskráninga það sem af er ári er á breiðum grunni og mest í rafmagnsbílum og síðan tengiltvinnbílum (e. PHEV) og tvinnbílum (e. hybrid).

1. janúar –19. desember

Skattaumhverfið að breytast um áramótin

Ein líklegasta skýringin á miklum nýskráningum í nóvember og desember er að hluti bílakaupa hafi færst fram í tímann vegna breytinga á vörugjaldi á ökutæki sem taka gildi um áramótin. Þar að auki mun rafbílastyrkur lækka um áramótin úr 900 þús.kr. í 500 þús.kr.

Það sem af er ári eru rafmagn algengasti orkugjafinn og hafa nýskráningar verið að aukast á síðustu tveimur mánuðum samanber myndin hér að neðan. Líkleg skýring er lækkun rafbílastyrks um áramótin en á móti mun 5% vörugjald falla niður. Heildaráhrif þessara tveggja breytinga á verð rafmagnsbíla geta verið mismunandi eftir verðflokkum. Fyrir rafmagnsbíla í lægri verðflokkum kann endanlegt verð að hækka en á móti kann endanlegt verð að lækka fyrir rafmagnsbíla í hærri verðflokkum.

1. janúar –19. desember

Það hefur einnig verið töluverð aukning í nýskráningum tvinnbíla milli ára. Tvinnbílar verða fyrir umtalsverðum hækkunum á vörugjaldi um áramótin sem munu líklega koma fram í hærra verði þó slík ákvörðunartaka sé á endanum ávallt ákvörðuð af söluaðilum.

Þá hafa nýskráningar tengiltvinnbíla einnig verið að aukast á síðari hluta árs samanborið við fyrra ár. Töluverð óvissa ríkir um áhrif af breytingum vörugjalds á tengiltvinnbíla þar sem að prófunaraðferð við mælingu á skráðri losun er að breytast um áramótin. Breytingin leiðir til þess að skráð CO2-gildi hjá mörgum tengiltvinnbílum hækkar. Þar sem vörugjald er stighækkandi með hærri losun getur það haft veruleg áhrif á álagt vörugjald og þar með verð tengiltvinnbíla. Það sem er óheppilegt að við þessar aðstæður kann að skapast sú staða að nýr tengiltvinnbíll verður skattlagður hærra en tengiltvinnbíll sem er í reynd eins að öllu leyti nema losunargildi hefur verið skráð samkvæmt eldri prófunaraðferð.

Yfirvofandi breytingar á vörugjaldi og lækkun rafbílastyrks skýrir líklega stóran hluta af kröftugum endaspretti í nýskráningu nýrra fólksbíla síðastliðnar vikur. Það verður áhugavert að fylgjast með þróun nýskráninga út árið og ekki síður hvernig markaðurinn stillir sig af á nýju ári.