Fara í efni

Kraft­mik­ill en samt þýðgeng­ur

Fréttir

Frétt af mbl.is

Þegar það snjó­ar eins og eng­inn sé morg­undag­ur­inn er fátt um fína drætti fyr­ir bíla­blaðamenn. Þess vegna var það eins og himna­send­ing að fá eitt stykki fjór­hjóla­drif­inn Mitsu­bis­hi L200 pall­bíl til próf­un­ar í öll­um snjón­um.

Nýi bíll­inn er fimmta kyn­slóð þessa vin­sæla pall­bíls sem seld­ist vel á Íslandi þegar inn­flutn­ings­gjöld voru pall­bíl­um hag­stæð og þeir báru lægri vöru­gjöld en sam­bæri­leg­ir jepp­ar. Nú er tíðin önn­ur og þess vegna skipt­ir máli að þeir mengi minna en áður, sem nýr L200 ger­ir ein­mitt með nýrri 2,4 lítra dísil­vél með forþjöppu.

Ný og létt­ari vél

Nýja MIVEC-dísil­vél­in er eina vél­in í boði í þess­um bíl og satt best að segja dug­ar hún vel þrátt fyr­ir að vera aðeins 2,4 lítra. Þetta er ný­tísku­leg vél með breyti­leg­um still­ing­um á forþjöppu eft­ir átaki, breyti­leg­um ventl­a­stýri­búnaði og not­ar mikið af áli. Þess vegna er eyðsla henn­ar aðeins 7,2 lítr­ar á hundraðið í blönduðum akstri, sem er 15% minna en í fyrri kyn­slóð og CO2 út­blást­ur því aðeins 173 g/​km. Til sam­an­b­urðar er CO2 inni­hald Toyota Hilux með 2,5 lítra dísil­vél með bein­skipt­ingu 193 g/​km og mjög svipað í Is­uzu D-Max með sömu stærð af vél og bein­skipt­ingu, eða 194 g/​km. Vél­in er fljót að skila afl­inu og það virk­ar jafnt upp allt snún­ings­sviðið. Upp­takið í L200 er aðeins 10,4 sek­únd­ur í hundraðið sem verður að telj­ast gott fyr­ir pall­bíl og rús­ín­an í pylsu­end­an­um er hversu þýðgeng hún er og laus við titr­ing, einnig á lág­snún­ingi.

Fyr­ir vikið er L200 án efa hljóðlát­asti pall­bíll sem und­ir­ritaður hef­ur prófað. Próf­un­ar­bíll­inn var bú­inn sex gíra bein­skipt­ingu sem var þægi­leg í skipt­ing­um, nema kannski þegar kom að því að setja í bakk­gír sem var helst til stíf­ur. Hægt er að stilla Super Select fjór­hjóla­drifið gegn­um einn takka í miðju­stokki, en L200 er eini pall­bíll­inn sem hægt er að keyra í hvort sem er aft­ur­hjóla­drifi eða fjór­hjóla­drifi við hvaða aðstæður sem er. Kost­ur­inn við að geta sett hann í fjór­hjóla­drifið í háa er aukið veggrip í bleytu og meira grip þegar bíll­inn er með þungt í drætti. Hægt er svo að læsa milli­kassa í bæði háa og lága drif­inu. Búið er að end­ur­hanna fram­fjöðrun og stýris­gang og lengja blaðfjaðrir að aft­an svo að akst­ur­inn er mýkri en áður án þess að það komi niður á flutn­ings­getu hans.

Besta flutn­ings­get­an í flokkn­um

Ný kyn­slóð Mitsu­bis­hi L200 er mun klass­ísk­ari í hönn­un en fyrri kyn­slóð sem þótti fara ótroðnar slóðir. Sumt í hönn­un hans held­ur þó áfram eins og J-laga lín­an milli farþega­rým­is og palls­ins. Mun meira er af krómi utan á bíln­um og þá sér­stak­lega á fram­enda hans. Að inn­an er plastið alls­ráðandi en þar sem þetta er pall­bíll er hon­um fyr­ir­gefið meira en ef um ný­tísku­leg­an jeppa væri að ræða. Hönn­un­in kem­ur að nokkru leyti frá Outland­er en sjá má sams kon­ar búnað, eins og upp­lýs­inga­sjá fyr­ir hljóm­tæki með hljóðstyrkstakk­ann vit­laus­um meg­in. Sæt­in frammí eru stór og þægi­leg en eins og í pall­bíl­um af þess­ari stærð sit­ur maður dá­lítið flöt­um bein­um.

Þá kem­ur sér vel að hægt er að stilla aðdrátt á stýri sem ekki var hægt í gamla bíln­um. Nóg pláss er í aft­ur­sæt­um fyr­ir þrjá full­orðna sem mega þó ekki vera of lang­ir því að höfuðrými er af skorn­um skammti fyr­ir þá sem eru komn­ir yfir 180 senti­metra. Sam­an­lögð flutn­ings­geta L200 er sú mesta í flokkn­um en sam­tals get­ur hann flutt 4.090 kg en hann get­ur dregið 3.100 kg og borið tonn í pall­in­um. Hann fer því létt með að flytja stórt pall­hýsi eða tveggja öxla kerru af stærstu gerð án fyr­ir­hafn­ar.

Í lægri vöru­gjalda­flokki

MMC L200 kem­ur vel bú­inn í bæði bein­skiptri og sjálf­skiptri út­gáfu. Meðal staðal­búnaðar má nefna upp­lýs­inga­skjá, blát­ann­ar­búnað fyr­ir síma, loft­kæl­ingu, bakk­mynda­vél og regn­skynj­ara. Í próf­un­ar­bíln­um var auk þess búið að koma fyr­ir ak­reinavara sem er búnaður sem maður hef­ur ekki séð áður í pall­bíl en get­ur komið sér vel. Þótt ekki sé búið að prófa hann hjá EuroNCAP má bú­ast við góðri út­komu en L200 er með hvorki fleiri né færri en sjö ör­yggis­púða. Toyota Hilux með 2,5 lítra dísil­vél í sam­bæri­legri SR út­gáfu kost­ar frá 7.340.000 kr. sjálf­skipt­ur. Nýr L200 er á mjög svipuðu verði, 7.390.000 kr. Is­uzu D-Max er aðeins ódýr­ari á 7.090.000 kr. sjálf­skipt­ur í Lux-út­gáfu. Þar sem L200 fell­ur í 35% toll­flokk í stað 45% eins og hjá helstu keppi­naut­um hefði verðið kannski getað verið lægra en það verður þó að telj­ast vel sam­keppn­is­hæft.

http://www.mbl.is/bill/domar/2015/12/08/kraftmikill_en_samt_thydgengur/