Frétt af www.mbl.is
Kóresku bílsmiðirnir Kia og Hyundai koma út með glans úr árlegri viðurkenningu fyrir neytendaánægju (VSA) vestan hafs. Höfðu þeir betur í keppni við úrvalsbíla á borð við Mercedes-Benz S Class og BMW 7-línuna.
Um er að ræða niðurstöður úr rannsókn á svörum 66.000 kaupenda nýrra bíla í Bandaríkjunum. Náðu þau til 274 bílamódela frá 33 bílmerkjum 11 bílsmiða. Keppnin var afar hörð og áttu níu bílsmiðanna 11 að minnsta kosti einn bíl í efsta sæti einhvers ánægjuflokksins.
Kia og Hyundai unnu samtals fjóra flokka af 23 og deildu sigri í þeim fimmta. Meðal sigurvegara í flokki voru Hyundai Sonata og Kia Soul. Tilkomumesti sigur Kia var í flokki lúxusbíla þar sem flaggskipið K900 hlaut hærri einkunn en nokkru sinni hefur mælst. Bar bíllinn sigurorð af einhverjum fínustu bílum sem framleiddir eru.
Til viðbótar vann K900 heildarverðlaunin og var einkunnagjöfin sú hæsta í sögu VSA-viðurkenninganna.
http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/07/09/koresk_merki_koma_vel_ut/