Fara í efni

Kia kynnir nýjan undirvagn fyrir rafbíla

Fréttir

Kia í samvinnu við Hyundai Motor Group kynnti í dag nýjan og háþróaðan E-GMP undirvagn (Electric-Global Modular Platform) sem er sérstaklega hannaður fyrir rafbíla. Þessi nýi undirvagn verður notaður í næstu kynslóðir rafbíla hjá samsteypunni. Hann mun skila rafbílunum yfir 500 km drægni í fullri hleðslu samkvæmt WLTP staðli og bílarnir munu geta náð 80% hleðslu á innan við 18 mínútum með háhraða hleðslustöð. Öflugri rafbílar munu ná meiri hröðun með E-GMP undirvagninum eða úr kyrrstöðu í hundrað km hraða á innan við 3,5 sekúndum. Þeir munu ná allt að 260 km hámarkshraða.

Nýi undirvagninn mun auk þess skila rafbílunum betri aksturseiginleikum, meira öryggi og meira innanrými. Kia Motors, sem er innan Hyundai Motor Group samsteypunnar, ætlar sér að vera leiðandi í þróun rafbíla með hinum nýja E-GMP undirvagni. Kia, Hyundai og Genesis tengjast í gegnum þessa öflugu suður-kóresku samstæðu.