Fara í efni

Jepp­inn sem held­ur að hann sé sport­bíll

Fréttir

Frétt af mbl.is

Ný­verið breyttu Mercedes-Benz um nafn á ML-jeppalínu sinni og heit­ir lín­an GLE í dag. Ekki verður annað sagt en að hin nýja týpa fari vel af stað, sér­lega fal­leg út­lits og hvaðeina, en þegar und­ir­ritaður prófaði GLE 500e – þ.e.a.s. í plug-in hybrid út­færslu – verður að segj­ast eins og er að bíll­inn kom mér tals­vert í opna skjöldu.

Þegar var fyr­ir­liggj­andi að bíll­inn er hörku­fal­leg­ur og inn­an­stokks er allt eins og við er að bú­ast hjá Mercedes-Benz. En aflið og togið í þess­um bíl var það sem kom skemmti­lega á óvart og gerði akst­ur­inn að skemmti­stund sem í minn­um verður höfð.

Reffi­leg­ur að sjá og keyra

GLE-bíll­inn sem tek­inn var til kost­anna var með AMG-út­lit­spakka sem óneit­an­lega ger­ir hann all­an sport­legri og meiri á vegi. Einkar vel heppnaðar loft­flæðilín­ur á hurðaflek­um bæta um bet­ur og GLE er hinn sport­leg­asti að sjá. Skemmst er frá því að segja að þegar lagt er af stað stend­ur GLE við stóru orðin sem út­litið ber með sér því bíll­inn hrein­lega rýk­ur af stað, mun snarp­ari en ég átti von á. Bíll­inn er bú­inn hreint framúrsk­ar­andi loft­púðafjöðrun sem virk­ar prýðilega í borg­arakstri, gleyp­ir óþjál­ar hraðahindr­an­ir eins og ekk­ert sé í al­mennri still­ingu og í Sport-still­ing­unni breyt­ir hún bíln­um – mikið rétt – í sport­bíl. Bíll­inn lækk­ar, fjöðrun­in stífn­ar, og bíll­inn ríg­held­ur grip­inu jafn­vel þó slegið sé í klár­inn og það dug­lega. Bíll­inn er bú­inn 3.0 lítra vél sem skil­ar 442 hest­öfl­um og togi sem nem­ur 480 Nm. Þess­ar töl­ur segja allt sem segja þarf og hljóðið sem berst frá vél­inni inn í farþega­rýmið er unaðslegt.

Batte­ríið í skott­inu

Stóra spurn­ing­in sem vakn­ar er óhjá­kvæmi­lega þessi: „Ókei, plug-in hybrid er gott og blessað en hvar er raf­hlaðan?“ Hún er í skott­inu og birt­ist manni þar sem upp­hækkaður botn í far­ang­urs­rým­inu. Ein­hverj­ir kunna að fetta fing­ur út í geymslu­rýmið sem glat­ast en sá sem þetta rit­ar lít­ur á það sem vel ásætt­an­leg­an fórn­ar­kost þegar litið er til þess sem fæst í staðinn, auk þess sem skottið er eft­ir sem áður býsna pláss­gott. Kolt­ví­sýr­ings­gildið er nefni­lega ekki nema 84 g á kíló­metr­ann sem þýðir að GLE 500e fell­ur í núll­flokk í inn­flutn­ingi og er því á einkar hag­stæðu verði. Grunn­gerð GLE kost­ar 10.990.000 krón­ur og það telst gjaf­verð fyr­ir þenn­an bíl. Sá sem reynslu­ek­inn var er reynd­ar með áður­nefndu AMG-út­liti sem kost­ar auka­lega ásamt ýms­um öðrum búnaði og kost­ar rétt um 14 millj­ón­ir. Al­vöru­pen­ing­ur, víst er það, en það fæst mjög ríf­lega fyr­ir verðið og díll­inn telst hreint fyr­ir­tak. Of langt mál er að telja upp all­an búnaðinn sem bíll­inn hef­ur til að bera en þó er vert að minn­ast á bakk­mynda­vél­ina, sem er eig­in­lega loft­mynda­vél, rétt­ara sagt. Mynd­in sem fæst á skjá­inn í mæla­borðinu er sum­sé eins og mynd úr lofti tek­in og sýn­ir ekki bara það sem fyr­ir aft­an bíl­inn er, held­ur líka það sem er sitt hvor­um meg­in við hann – sem dróni flygi í 5 metra hæð yfir bílþak­inu og sendi upp­tök­una rak­leiðis í bíl­inn. Fyr­ir bragðið er hæg­ast­ur vand­inn að bakka inn í hvaða stæði sem vera skal og mun­ar um slíkt þegar ekið er um á jeppa.

Og þakið, vel á minnst; víðfeðmt glerþak sem ger­ir farþegum kleift að strjúka frjálst höfuð. Að minnsta kosti líður manni þannig.

Veru­lega sterk­ur kost­ur

Und­ir­rituðum tókst að aka á raf­magni einu sam­an í röska 20 kíló­metra (fram­leiðand­inn seg­ir að hægt sé að ná 30) og það er út af fyr­ir sig gott og blessað. Þeim er þetta rit­ar finnst engu að síður stærstu punkt­ur­inn fólg­inn í því að sportjeppi frá Mercedes-Benz, ger­sam­lega hlaðinn búnaði af öllu tagi og hreint út sagt stór­kost­lega skemmti­leg­ur í akstri, er tollaður í núll­flokk og er eft­ir því á hag­stæðu verði. Sam­keppn­in í þess­um flokki er hörð og helstu keppi­naut­arn­ir, einkum Porsche Cayenne og BMW X5, munu þurfa að taka á hon­um stóra sín­um í sam­keppn­inni við hann þenn­an.

http://www.mbl.is/bill/domar/2016/05/30/jeppinn_sem_heldur_hann_se_sportbill/