Tímarnir breytast og mennirnir með,“ stendur þar og um það er ekki deilt. G-Class jeppinn frá Mercedes-Benz er hins vegar að miklu leyti undanskilinn þessari speki því hann hefur lítið sem ekkert breyst í 30 ár, að minnsta kosti hvað útlitið áhrærir.
Á meðan þorri fólksbíla virðist hafa það að markmiði að líkjast rafmagnsrakvél meira með hverju árinu, með síaukinni straumlínulögun út í það óendanlega, heldur „Geländewagen“-jeppinn sínu striki og lætur sér fátt um tískusveiflur finnast. Þannig mætti segja að G-Class sé bíll sem velur sér eigendur en ekki öfugt; þeir einir sem eru tilbúnir að taka þessum dúndurjeppa á hans ósveigjanlegu forsendum eru þess verðugir að fá að eiga hann. Aðstaða ökumanns er fyrirtak og útsýni fram og til hliðanna feikigott enda hátt til lofts þó ekki sé ýkja vítt til veggja. Öll möguleg tækni er innan seilingar og gerir aksturinn í hæsta máta ánægjulegan. mbl.is/RAX
Bíllinn er nú einu sinni handsmíðaður í Graz í Austurríki, heimabæ Arnolds Schwarzenegger, nema hvað.
Brynvarinn séntiljeppi
Þegar kantaðar línur G-Class jeppans ber fyrir augu dettur manni helst í hug að hér sé kominn bræðingur af Benz S-Class lúxusbíl og Panzer-skriðdreka. Ekki er það til að slá á þá tilfinningu þegar hurðir hans eru aflæstar því þá syngur í þýska stálinu svo um munar. Hér heyrist ekkert „píp píp“ eða ámóta gaumhljóð, heldur duglegt og næstum skerandi „tsjakk“ – undirritaður man bara ekki eftir öðru eins hljóði í hurðalás. Hurðaskellir G-Class staðfesta svo þessa upplifun því gegnum þungan og traustvekjandi dynkinn heyrðist glögglega í stálinu. Sú hugsun kviknar óneitanlega að í þessum dreka sé maður öruggur. Góðu heilli fór ekki svo að á það þyrfti að reyna en blaðamaður óttaðist aldrei um sig eða sína þegar ekið var á jeppanum um götur borgarinnar. Til þess er hann einfaldlega of verklegur.
Að innan er hann eins og best gerist um lúxusbíla, og það er afrek út af fyrir sig hversu vel tekst að splæsa verklegu ytra byrðinu saman við allan munaðinn innandyra svo að úr verði sannfærandi heild. Of langt mál er að telja upp allan búnaðinn sem hann hefur til að bera – til þess eru starfsmenn umboðsins – en til að gefa lesendum einhverja hugmynd um báðar hliðar búnaðarins, dugnaðinn og munaðinn, er G-Class með sítengt 4MATIC-aldrif með mismunadrifsgír, 100% læsingar á drifum og millikassa, sjö gíra sjálfskiptingu, hita í fram- og aftursætum, tvívirka loftkælingu, ríkulegt aðgerðastýri, koltrefjaklædda líningu í innréttingu, minnispakka fyrir framsæti og stýrishjól, Harman Kardon surround-hljóðkerfi og þannig má lengi telja. Um engan þarf að væsa í þessum bíl, svo mikið má fullyrða.
Fyrirtaks útsýni úr hásætinu
Það vantar því ekki þægindin á þessum bæ. Sætin eru í stuttu máli sagt framúrskarandi enda hægt að stilla þau út í það óendanlega. Ökumaður situr hátt og sér vel út undan sér til allra átta enda gluggar óhemju stórir. Það er helst að hauspúðinn á miðjusætinu aftur í skyggi á útsýnið í bakspeglinum.
Þegar lagt er af stað kemur það ökumanni í opna skjöldu hversu vel þessi hlunkur togar. Jeppinn gersamlega rýkur af stað og vinnslan er alveg hreint fyrirtak. Urrið í vélinni er þá kafli út af fyrir sig. Það er reyndar meiriháttar ráðgáta hvernig verkfræðingunum hjá Benz tekst að ná öðru eins togi út úr aðeins 211 hestöflum þegar haft er í huga að bíllinn er 2,5 tonn. Bravó!
Þá er viðnámið í stýrinu hárrétt fyrir jeppa af þessu tagi því um leið og stýrisbúnaðurinn tekur af manni erfiðið við að beygja finnur ökumaður engu að síður fyrir snúningnum. Það er eitthvað vandað og traustvekjandi við það. Eitt kom þó heldur sérkennilega fyrir sjónir, eða réttara sagt hlustir, og það var hljóðið í rúðuþurrkunni á afturhleranum. Um leið og tilkomumikið hljóðið í hurðahlerum og fjarstýrðu læsingunni var til ánægju er mótorhvinurinn í téðri afturrrúðuþurrku fáránlega hávær. Farþegum brá hálfpartinn þegar hún fór í gang.
Það er svo ekki bara rammgert útlitið sem gefur ökumanni og farþegum öryggistilfinningu. Benz G-Class er búinn átta líknarbelgjum, fyrir ökumann og farþega í framsæti, og svo þremur meðfram hvorri hlið bílsins fyrir farþega. Þá eru NECK-PRO hálsmeiðslavarar í hauspúðum, LED-dagljós og stöðugleikabúnaður fyrir akstur með tengivagn. Það kemur sér vel þegar haft er í huga að hann hefur dráttargetu upp á 3.500 kíló.
Næsta verkefni verkfræðinganna hjá Benz er svo að minnka koltvísýringsgildið á G-Class, sem er heil 295 g/km. Það jaðrar við að teljast boðlegt nú til dags og betur má ef duga skal í þeim efnum.
Allt hefur sinn verðmiða
Og þá er það verðið. Þú byrjaðir kannski á að lesa þessa málsgrein, lesandi góður? Þessi magnaði jeppi hefur ýmislegt til að bera og fyrir það þarf að borga. Grunngerðin G 350 BlueTec sem prófuð var kostar tæplega 24 milljónir króna. Einnig fæst G 500 með bensínvél sem skilar 387 hestum og þá hækkar verðið í 27,5 milljónir. Vilji menn svo taka drauminn alla leið er hægt að skella sér á G 63 AMG fyrir litlar 37,5 milljónir.
Allt í allt er hér um draumajeppa að ræða í flestum skilningi. Hann er dýr en sé maður á annað borð í aðstöðu til að kaupa bíl fyrir 25 milljónir eða svo er þetta rakinn kostur. Ég hef heyrt eitt bílaumboðið kalla einn af sínum jeppum „konung jeppanna“ og annað segist vera „öruggur staður til að vera á“. Það er gott og blessað en einhvern veginn minnir framangreint mig fyrst og fremst á Benz G-Class jeppann.
jonagnar@mbl.is