Fara í efni

Ísland keppti í bílgreinaflokki í fyrsta sinn á Euroskills 2025

Fréttir

Þrettán fulltrúar Íslands fóru til Herning í Danmörku til að taka þátt í Euroskills, Evrópumóti iðn- og verkgreina sem fram fór dagana 9.–13. september.

Í fyrsta sinn tók Ísland þátt í bílgreinaflokki, þar sem Adam Stefánsson, 24 ára bifvélavirki sem lærði í Borgarholtsskóla og starfar hjá Bílaverkstæði Högna í Hafnarfirði, keppti fyrir Íslands hönd. Adam var valinn úr hópi 10 keppenda eftir próf hjá Iðunni fræðslusetri og undirbjó sig af krafti síðustu mánuði.

Keppnin fól í sér fjölbreytt og flókin verkefni sem líkja eftir raunverulegum aðstæðum bifvélavirkja. „Keppnin fer þannig fram að búið er að útbúa nokkra bíla sérstaklega fyrir mótið – í þetta skiptið Renault, Kia og Mercedes-Benz. Tölvubúnaður bílanna er stilltur þannig að prófdómarar geta ‘sett inn’ villur sem við þurfum að finna og greina,“ útskýrir Adam. Hann bætir við að verkefnin séu mun erfiðari en á hefðbundnu verkstæði: „Í daglegu starfi þurfum við oft að greina eina eða tvær bilanir, en þarna gátu verið 20–30 villur í hverjum bíl sem þurfti að leysa á einni klukkustund.“

Keppnin skiptist í fimmtán verkefni sem dreifðust yfir þrjá daga. Keppendur fengu aðeins einn dag til að kynnast og læra á þau tæki og tól sem nota mátti á mótinu áður en sjálf keppnin hófst.

Adam segir að það hafi verið meðvitað ákvörðun að senda reyndan bifvélavirkja út í þetta krefjandi umhverfi. „Þetta hefur verið verulega krefjandi keppni og hefði verið óráðlegt að kasta nemanda svona út í djúpu laugina í fyrstu atlögu,“ segir hann.

Adam stóð sig afar vel í sterku alþjóðlegu samkeppnisumhverfi og segir reynsluna ómetanlega. „Það var ótrúlega lærdómsríkt að kynnast nýjustu tækni og sjá hvernig aðrir nálgast starfið – þetta er reynsla sem nýtist mér bæði í vinnu og frekara námi,“ segir hann.

Euroskills er stærsti vettvangur Evrópu fyrir iðn- og verkgreinar og safnar saman yfir 600 keppendum frá öllum álfunni. Þátttaka Íslands sýnir styrk, metnað og framtíðarmöguleika ungs fagfólks sem vill standa jafnfætis þeim bestu í Evrópu.

Bílgreinasambandið óskar Adami Stefánssyni til hamingju með frábæran árangur og fagnar jafnframt því að Ísland sendi í fyrsta sinn keppanda í bílgreinum á mótið.