Fara í efni

Ísland er sem sniðið að raf- og tengiltvinntækninni í samgöngum

Fréttir

Grein sem birtist í morgunblaðinu 15.11.2019, eftir Jón Trausta Ólafsson

Íslendingar eru meðal evrópskra forystuþjóða í rafbílavæðingunni, ekki bara í Evrópu heldur einnig á heimsvísu þar sem sala rafknúinna fólksbíla jókst um 46% á fyrri árshelmingi 2019 samanborið við fyrra ár. Mest hlutdeild slíkra bíla var í Noregi. Þar í landi voru 58% nýskráðra fólksbíla á fyrri árshelmingi tengjanlegir rafbílar (BEV og PHEV) á sama tíma og
hlutfallið var um 15% hér á landi. Margir markaðir hafa aukið hlutfall sitt í sölu tengjanlegra rafbíla. Þannig hafa t.d. Danir aukið söluna um 86% og Írar um 182%. Einungis England dró úr sölu tengjanlegra rafbíla og er ástæðan einkum minnkandi stuðningur stjórnvalda.

Ótrúlegar framfarir

Fáir í bílgreininni gerðu sér grein fyrir því fyrir fimm árum að hraði rafbílavæðingarinnar yrði svo mikill sem raun ber vitni. Stjórnvöld hafa mikil áhrif í þessari vegferð, m.a. með beitingu vörugjalda og virðisaukaskatts. Bílaframleiðendur hafa einnig lagt þung lóð á vogarskálarnar með umhverfinu og hefur bylting orðið með minnkandi útblæstri. Slíkum framförum hefur verið náð að loft í menguðum stórborgum er nú jafnvel hreinna þegar það hefur farið í gegnum nýjustu Euro 6D-dísilvélarnar eins og sérfræðingar óháða greiningar- og prófunarfyrirtækisins Emissions Analytics í Bretlandi hafa nýlega sýnt fram á.

Gríðarlegar sektir ESB

Ný reglugerð ESB, kölluð CAFE, kveður á um að frá og með árinu 2020 megi nýir bílar á Evrópumarkaði menga að hámarki 95 grömm á hvern kílómetra að meðaltali. Þessi mörk þýða að bensínbíll má að hámarki eyða 4,1 lítra að meðaltali á hverja 100 ekna km og dísilbíll 3,6 lítrum. Rafbílar fá svokallað „súperkredit“ og telja tvöfalt með 0 grömm á hvern km. Nái framleiðandi ekki markmiðinu fær hann 95 evra sekt (liðlega 13 þúsund krónur) fyrir hvert umframgramm margfaldað með heildarfjölda seldra bíla á tímabilinu. Þetta þýðir að mengi skráðir bílar t.d. 5 g umfram leyfilegt hámark og seldir hafi verið 500 þúsund bílar frá framleiðandanum á ákveðnu tímabili verður reikniformúlan 95 evrur x 5 x 500 þúsund sem þýddi sekt upp á ca. 33 milljarða króna. Þessar væntanlegu kröfur hafa auðvitað aukið áherslu framleiðenda á þróun enn hreinni bíla, m.a. með aukinni rafmagnstækni, þ. á m. betri tengiltvinn- og tvinnbílum.

Tengiltvinnbílar henta afar vel á Íslandi

Fyrstu kynslóðir tengiltvinnbíla komu á markað fyrir nokkrum árum. Algeng drægni þeirra er á bilinu 20 til 30 km á rafmagninu einu saman miðað við gömlu NEDC-mælinguna. Við daglegar raunaðstæður á Íslandi er drægnin 10 til 15 km. Nú eru fullkomnari kynslóðir tengiltvinnbíla komnar á markað þar sem algeng drægni er á bilinu 50 til 96 km miðað við nýju WLTP-mælinguna. Sú mæling er mun raunhæfari en sú gamla enda framkvæmd við eðlileg skilyrði, raunhæfan akstur, hitastig, aksturslag ökumanns o.s.frv. Komið hefur í ljós að WLTP stenst mjög vel við íslenskar aðstæður, þar sem flestir aka að meðaltali 30 til 50 km á degi hverjum. Þess vegna er ekki óraunhæft að halda því fram að tengiltvinnbíll með 50 til 70 kílómetra drægni henti afar vel á Íslandi, þar sem hægt er að aka á rafmagninu einu flesta daga vikunnar og grípa til sprengihreyfilsins á lengri ferðalögum.

Misráðið væri að afnema ívilnanir

Stjórnvöld hafa lagt til að hætt verði stuðningi við tengiltvinnbíla frá og með árslokum 2020 eða eftir tæpa 14 mánuði. Stuðningi við hreina rafbíla verði hins vegar haldið áfram til loka árs 2022. Verði ákvörðunin að veruleika er ljóst að hægja mun á rafbílavæðingunni eins og gerðist í Bretlandi en einnig vegna þess að hreinir rafbílar eru enn framleiddir í litlu magni og skammtaðir á mismunandi markaði vegna of lítils framboðs enn sem komið er. Stærstu bílamarkaðir heims eru hins vegar að taka við sér í sölu á rafknúnum bílum, t.d. Þýskaland sem selt hefur flesta tengjanlega rafbíla í Evrópu á árinu og tekið fram úr Noregi hvað magn varðar, þó svo að hlutdeildin sé enn mjög lítil með hliðsjón af heildarmarkaðnum í Þýskalandi.

Ísland er sniðið fyrir rafknúna bíla

Ísland er fullkomið land fyrir rafknúna bíla, í senn 100% rafbíla, sífellt langdrægari tengiltvinnbíla og vissulega tvinnbíla. Fjölskyldur sem ferðast landshluta á milli og sækja vinnu í nálægu sveitarfélagi hafa mikinn hag af því að geta eignast tengiltvinnbíl sem kemst 50 til 70 km á rafmagni og er með hreina Euro 6D bensín- eða dísilvél sem tekur við á lengri ferðalögum. Rekstur slíkra bíla er á hverju ári án efa nokkur hundruð þúsund krónum lægri heldur en eldri bíla. Tengiltvinnbílaeign styður við uppbyggingu innviða fyrir rafbíla komandi kynslóða því augljóst er að þangað stefnum við. Að þessu sögðu væri það misráðið af stjórnvöldum að hætta stuðningi við tengiltvinnbíla í lok næsta árs. Slíkt mun hægja á rafbílavæðingu þjóðarinnar, hægja á innviðauppbyggingu og kosta fjölskyldur og fyrirtæki fjármuni sem ekki munu sparast í eldsneytiskostnaði landsmanna. Líklegt er að sala bensínog dísilbíla aukist að nýju verði þetta niðurstaðan. Ísland hefur tekið sér forystuhlutverk í rafbílavæðingu og er fyrirmynd margra annarra. Höldum þeirri stöðu áfram.

Höfundur er formaður Bílgreinasambandsins