Fara í efni

Hreinni bílar - lykill að lausninni

Fréttir

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru hnattrænn umhverfisvandi enda virðir mengun engin landamæri. Vitundarvakning á þessu sviði hefur meðal annars leitt til stórfelldra framfara í framleiðslu vistvænna bifreiða, bæði varðandi notkun á vistvænni orku og notkun áls til að létta bílana. Kostir umhverfisvænni bíla eru ótvíræðir, þeim fylgir ekki aðeins umhverfislegur ávinningur heldur líka fjárhagslegur því að orkan sem knýr þá er ódýrari. Það á sérstaklega við hér á Íslandi þar sem allt rafmagn er framleitt með sjálfbærum hætti. Undanfarin ár hafa stjórnvöld ýtt undir áframhaldandi vistvæna þróun með því að leggja virðisaukaskatt niður af rafknúnum bílum, auk þess sem vörugjöld af bensín- og dísilknúnum bifreiðum eru breytileg eftir skráðri losun koltvísýrings ökutækisins. Umræðan í dag beinist í áttina að rafbílavæðingu, en með hliðsjón af miklum framförum í þróun bensín- og dísílvéla er útlit fyrir að þær muni gegna mikilvægu hlutverki við að draga enn frekar úr mengun.

 

Styttist í tvo milljarða ökutækja

Á annan milljarð ökutækja er í heiminum og mikil aukning er á sölu í þróunarlöndum. Með áframhaldandi vexti styttist í að tveir milljarðar ökutækja verði í umferð, þar af rúmlega helmingurinn fólksbílar. Jörðin okkar nálgast því tímamót þar sem reynt verður á þolmörk hennar, að hluta til vegna mengunar úreltra bílvéla. Ábyrgð kallar á aðgerðir.

 

Frá upphafi hefur loftmengun verið þekktasti vankantur bifreiða, en ekki sá eini. Á nítjándu öld skildu úreltir bílar eftir sig úrgangsefni, gömlum hjólbörðum var brennt í milljónatali og þungmálmar úr rafhlöðum skiluðu sér til hafsins. Þrátt fyrir þetta neikvæða vistspor hafa bílar gegnt veigamiklu hlutverki í þróun mannkyns og eru nauðsynlegir til að viðhalda þeim lífsstíl og efnahag sem við þekkjum í dag. Hér á landi eru bifreiðar ein af forsendum efnahagslegra framfara, þær eru til dæmis mjög mikilvægar í dreifingu ferðamanna um landið, auk þess sem mikið landrými á Íslandi leyfir okkur að búa á rýmri máta en flestum öðrum vestrænum þjóðum. Bifreiðar veita okkur einnig persónulegt frelsi, sveigjanleika og þægindi umfram það sem almenningssamgöngur eða reiðhjól bjóða upp á, þó þessir samgöngumátar eigi fullkomna samleið með bíleigandanum.

 

Aðhald Evrópusambandsins

Frá 1992 hefur Evrópusambandið sett fram reglugerðir með það markmið að auka loftgæði, sem þýðir að bílaframleiðendur þurfa að mæta ströngum Evrópustöðlum til þess að halda koltvísýringi og níturoxíðmengun niðri. Þökk sé þessum stöðlum hafa orðið miklar framfarir í þróun bensín- og dísilvéla. Sem dæmi losar dísilbíll með Euro 6-vottun eingöngu 0,08 grömm af níturoxíði á kílómetra, sem er einn tólfti af því sem var árið 1992 þegar staðallinn var fyrst kynntur til sögunnar. Við bætist að nýjustu dísilbílarnir er útbúnir sérstökum síum sem fjarlægja að miklu leyti útblástursefni er valda svif- og reykmengun. Losun dísilvéla á níturoxíði er orðinn það lítil að það styttist í að slík mengun heyri sögunni til.

Þessari framfarir marka kaflaskil í sögu dísilvéla þar sem nýjustu dísilvélar eru ekki lengur hluti vandans heldur lykill að lausn hans. Framtíðin felst í því að minnka útblástur koltvísýrings enn frekar en miklar framfarir hafa nú þegar átt sér stað. Dísilbílar með Euro 4-6 vottun mega eingöngu losa 0,50 grömm af kolmonoxíð (CO) á kílómetra en bifreið með Euro 1 staðli mátti losa 2,2 grömm af kolmonoxíð (CO) á kílómetra árið 1992.

Minnkunin er því rúmlega sexföld. Allir nýir bílar sem skráðir eru á Íslandi í dag verða að uppfylla Euro 6-staðalinn. Ýmsir bílaframleiðendur munu frá því í september 2018 uppfylla enn ríkari staðal, Euro 6d-staðalinn, sem setur fram enn frekari kröfur um hreinan akstur, og það allt að ári áður en staðallinn verður skylduviðmið.

 

Val og ábyrgð bílnotenda

Með því að farga gömlum bílum, sem ná einungis að uppfylla Euro 1-3-staðla og endurvinna þá geta neytendur spornað við skaðlegum útblæstri og stuðlað þannig að minni gróðurhúsaáhrifum og betra andrúmslofti. Bílaumboð hér á landi bjóða til dæmis upp á slíka þjónustu, þar sem bíleigendur geta látið farga eldri bílum til endurvinnslu og fengið inneign til kaupa á vistvænni og sparneytnari Euro 6-bíl í staðinn. Finnar hafa stigið þetta skref af fullum krafti og miklu þéttar en við Íslendingar, en gegn förgun eldri bíls, þá greiða finnsk stjórnvöld innborgun fyrir viðkomandi bíleiganda inn á nýjan, sparneytnari og hreinni bíl, til móts við bílgreinina sjálfa sem leggur til þátttöku á móti. Mörg önnur lönd hafa farið þessa leið til að flýta endurnýjun bílaflotans með hreinni bílum sem um leið eru miklu öruggari og sparneytnari. Meðalaldur bíla á Íslandi er nú um 12 ár og einn sá hæsti í Evrópu.

Með hjálp nýjustu og öflugra umhverfisstaðla og þróunarvinnu bílaframleiðenda losa bílar eingöngu um 4% prósent af heildar koltvíoxíðútblæstri (CO²) á Íslandi í dag. Það hlutfall mun væntanlega lækka enn frekar næsta áratuginn með áherslu stjórnvalda á orkuskipti og lágmarksmengun bifreiða í samgöngum. En þrátt fyrir jákvæða þróun hefur aldrei verið mikilvægara að bifreiðanotendur séu meðvitaðir um hvaða staðli bíllinn þeirra fylgir og taki ábyrgar ákvarðanir um framtíðina í kjölfarið.

 

Að sama skapi er mikilvægt að stjórnmálamenn sem tala fyrir Borgarlínu og umhverfisvænni bílaflota, tali af ábyrgð og þekkingu. Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar ritar grein í Morgunblaðið föstudaginn 11. maí. Hún segir það óhrekjanlega staðreynd að bíllinn sé mesti sökudólgur mengunar hér á landi og sé uppruni mestrar losunar kolefnis. Ljóst er að hún hefur ekki kynnt sér málin nægjanlega vel. Af lestri greinarinnar má sjá að þingmaðurinn gerir sér líklega ekki grein fyrir því að nýir bílar, hvort sem þeir eru knúnir rafmagni, bensín, dísil eða blöndu af þessum orkugjöfum eru miklu hreinni en bílar sem voru skráðir fyrir einum eða tveimur áratugum síðan, og þeim mun síður gerir hún sér grein fyrir að bifreiðar hér á landi, þótt gamlar séu, skila aðeins 4% af þeim koltvíoxíðútblæstri (CO²) sem við landsmenn skilum út í andrúmsloftið, eins og kom fram í svari umhverfisráðherra á Alþingi árið 2015. 

Jón Trausti Ólafsson 

formaður