Fara í efni

Hlutfall nýorkubíla af sölu mjög hátt

Sölutölur

 

  • Í ágúst seldist 581 nýr fólksbíll, eða 27,7% minna en í ágúst í fyrra.
  • Á fyrstu 8 mánuðum ársins hafa selst 6254 nýir fólksbílar, eða 31,4% færri en á sama tímabili í fyrra.
  • Samdrátturinn helgast fyrst og fremst af færri nýjum bílaleigubílum, en þeir hafa dregist saman um 59,7% á milli ára á meðan bílar til almennra fyrirtækja hafa aðeins dregist saman um 15,3%.
  • Sala til einstaklinga hefur eingöngu dregist saman um 4,1%.
  • Nýorkubílar standa fyrir meirihluta bílakaupa hjá einstaklingum, eða 64,4% af öllum seldum nýjum bílum til einstaklinga það sem af er ári. Þetta hlutfall var 41,7% á sama tíma á síðasta ári.
  • Svipað gildir um almenn fyrirtæki (önnur en bílaleigur) en 55,8% allra nýrra bíla sem þau hafa keypt á árinu eru nýorkubílar samanborið við 38,5% á sama tíma á síðasta ári.

Sala nýrra fólksbíla í ágúst dróst saman um 27,7% miðað við ágúst í fyrra, en alls voru skráðir 581 nýir fólksbílar nú en voru 804 í fyrra. Hefur þá sala nýrra bíla dregist saman um 31,4% á fyrstu 8 mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra, þar sem 6254 nýir fólksbílar hafa selst í ár en voru 9123 í fyrra.

Eins og bent hefur verið á áður þá má rekja samdráttinn á milli ára fyrst og fremst til heimsfaraldurs COVID-19, enda sjást mestu áhrifin þegar kemur að ferðaþjónustunni því mun færri bílaleigubílar hafa verið nýskráðir á fyrri helmingi ársins í ár miðað við sama tímabil síðasta árs. Hafa 1696 nýir bílaleigubílar verið skráðir núna á fyrstu 8 mánuðum ársins en þeir voru 4206 á sama tíma í fyrra, sem gerir 59,7% samdrátt.

Aðra sögu hefur hins vegar verið að segja af einstaklingum á árinu því til þeirra hafa selst 3346 nýir fólksbílar það sem af er ári og er það einungis samdráttur upp á 4,1% miðað við sama tíma í fyrra þegar selst höfðu 3488 bílar til einstaklinga. Sá hluti markaðarins hefur því verið með ágætum. Einnig hefur markaður með notaða bíla verið mjög góður hingað til á árinu, sem bendir til þess að einstaklingar virðast ekki hafa látið ástandið letja sig of mikið þegar að kemur að bílakaupum. Þá hafa almenn fyrirtæki (önnur en bílaleigur) keypt 1211 bíla í ár miðað við 1430 bíla í fyrra, eða 15,3% færri.

Nýorkubílar (rafmagns, tengiltvinn, hybrid, metan) standa fyrir stórum hluta af öllum seldum nýjum bílum á þessu ári. Bæði einstaklingar og fyrirtæki sækja í auknum mæli í slíka bíla en framboð þeirra er jafnframt alltaf að aukast og því orðið auðveldara að finna bíla sem henta þörfum hvers og eins. Það sem af er ári eru nýorkubílar 64,4% allra nýrra bíla sem einstaklingar hafa keypt en þetta hlutfall var 41,7% á sama tíma á síðasta ári. Svipaða sögu er að segja af almennum fyrirtækjum (fyrirtæki önnur en bílaleigur) en þar er hlutfallið 55,8% nú miðað við 38,5% á sama tíma í fyrra.