Fara í efni

Hinn lag­leg­asti Leaf

Fréttir

Frétt af mbl.is

Frá því raf­bíl­ar fóru að ryðja sér til rúms í al­manna­eigu hef­ur Nis­s­an Leaf borið höfuð og herðar yfir aðra bíla hvað fjölda seldra ein­taka varðar, hér­lend­is sem ann­ars staðar þar sem raf­bíl­ar hafa á annað borð náð að festa sig í sessi að ein­hverju marki.

Það má heita góður ár­ang­ur með til­liti til þess að bíll­inn vann eng­ar feg­urðarsam­keppn­ir, frómt frá sagt. En skap­legt verðið og dágott drægið trompaði greini­lega sjón­ræna þátt­inn og Leaf varð raf­bíll almúg­ans. Vænta má frek­ari drottn­un­ar Nis­s­an Leaf á sínu sviði því önn­ur kyn­slóð bíls­ins hef­ur nú litið dags­ljós og viti menn, bíll­inn hef­ur tekið sann­kallað risa­stökk fram á við hvað út­litið áhrær­ir. Nis­s­an Leaf er bara orðinn lag­leg­asti bíll og það sem meira er, það er hreint ekki leiðin­legt að keyra hann.

Það var mikið, Nis­s­an. Þarna!

Þegar nýi Leaf er bor­inn sam­an við þann gamla fær maður ekki var­ist því að spyrja sig hvað í ósköp­un­um vakti fyr­ir hönnuðum Nis­s­an þegar sá gamli var teiknaður, ekki síst þegar lausn­in var inni á gafli hjá þeim all­an tím­ann! Hér hef­ur nefni­lega það sama gerst og með jepp­ann Nis­s­an X-Trail. Hann var held­ur ólán­leg­ur út­lits uns Nis­s­an afréð að heim­færa grunnþætti hins framúrsk­ar­andi vel heppnaða út­lits á jepp­lingn­um Qashqai – alltént hvað fram­end­ann, ásjónu bíls­ins, varðaði – yfir á upp­færðan X-Trail. Það lukkaðist frá­bær­lega og jepp­inn sá er feiki­vel heppnaður í dag. Með sama hætti sver Leaf sig nú í ætt­ina, fríður og föngu­leg­ur, og væg­ast sagt ger­breytt­ur frá fyrri gerð. Ef ekki væri fyr­ir blokk­erað fram­grillið mætti í raun vart sjá að um raf­bíl er að ræða. Sem er ein­mitt vel – óskilj­an­leg árátta bíla­fram­leiðenda í þá átt að ljá raf­bíl­um sín­um út­lit sem helst mætti kalla einu nafni spes er löngu kom­in fram yfir síðasta sölu­dag. Þess í stað er Leaf ein­fald­lega sport­leg­ur að sjá, gæja­leg­ur og í einu orði sagt: flott­ur. Kíkið bara á meðfylgj­andi mynd­ir.

Fínn að inn­an en hvað er með þessa gír­stöng eig­in­lega?!

Innviðir hins nýja Leaf eru að sama skapi reffi­leg­ir og um­gjörð öku­manns í heild­ina flott. Stýrið er með cut-off lagi og eft­ir því sport­legt, og blá­ir saum­ar í áklæðinu gefa hon­um „dýr­an“ og skemmti­leg­an svip. 7 tommu skjár stend­ur fyr­ir sínu, bæði hvað varðar upp­lýs­inga­gjöf og al­menna­tengi­mögu­leika. Þetta er bíll sem hæf­ir snjall­kyn­slóðinni og það refja­laust. Öryggið er í önd­vegi að sama skapi og 6 stykki líkn­ar­belg­ir leggja sitt af mörk­um til að ljá öku­manni hug­ar­ró og það er al­menn­ur stæll yfir inn­rétt­ing­unni allri. Stórt hrós fyr­ir hana.

Það er al­kunna að raf­hlaðan tek­ur oft­ast pláss frá far­ang­urs­rými raf­bíla og skerðir skott­plássið þar af leiðandi tals­vert. Þetta er bless­un­ar­lega ekki vanda­mál í Nis­s­an Leaf því hann er með 400 lítra skott, sem er prýðis­gott fyr­ir bíl í þess­um stærðarflokki, og með því að fella niður aft­ur­sæt­in fæst far­ang­urs­rými sem nem­ur 1176 lítr­um. Það er hreint prýðilegt og hönnuðum til sóma.

Þó verður ekki hjá því kom­ist að ergja sig aðeins á gír­stöng­inni, en hún er af því snubbótta tagi sem fólki virðist ein­hverra hluta vegna tamt að setja í raf­bíla. Ef vilj­inn stend­ur til þess að gera gír­stang­irn­ar sem fyr­ir­ferðarminnst­ar væri allt eins ráð að umbreyta þeim al­farið í lá­rétt­an sner­iltakka eins og tíðkast í hinum og þess­um bíl­um upp á síðkastið. Mér leiðast þess­ar ein­kenni­legu gír­stang­ir og þær gera ekki nokk­urn hlut fyr­ir mig. Þetta er það eina sem angraði mig varðandi innviði bíls­ins þegar hann var prófaður á Teneri­fe um miðjan síðasta mánuði.

Stór­skemmti­leg­ur í akstri

Það er lán í óláni að ökumaður þarf ekki mikið að velta gír­stöng­inni fyr­ir sér í akstri þegar um sjálf­skipt­an bíl er að ræða, og hún gleym­ist nán­ast sam­stund­is þegar tekið er af stað. Nis­s­an Leaf er nefni­lega eng­in sauma­vél held­ur eld­spræk­ur í akstri, svo undr­um sætti þegar hon­um var reynslu­ekið. Raf­mótor­inn skil­ar 320 Nm togi til hjól­anna og bíll­inn er 7,9 sek­únd­ur í hundraðið. Það er um leið mik­ils vert að drægið er um 380 kíló­metr­ar, og það tek­ur um það bil 50 mín­út­ur að hlaða raf­hlöðuna upp í 80% hleðslu. Það er auðvitað gott og blessað upp á praktísku hliðina en mál mál­anna er að Leaf er með hress­andi upp­tak og það er minnst­ur vand­inn að taka fram úr hæg­fara bíl­um ef því er að skipta. Hann lá vel á hraðbraut­um Teneri­fe og átti alltaf smá djús inni þegar þess þurfti með, við framúrakst­ur og þess hátt­ar æf­ing­ar.

Það er einnig aðdá­un­ar­vert hve hljóðlát­ur bíll­inn er. Eins og gef­ur að skilja er ekki hefðbundnu vél­ar­hljóði til að dreifa, en Nis­s­an Leaf úti­lok­ar nán­ast allt veg­hljóð sömu­leiðis, ásamt því að yf­ir­bygg­ing­in gnauðar sama og ekk­ert vegna loft­mót­stöðu. Virki­lega vel gert og einn stærsti plús­inn við bíl­inn í akstri.

For­skotið lík­lega áfram tryggt

Með hliðsjón af því að Nis­s­an Leaf stakk aðra raf­bíla fljót­lega af hvað sölu­töl­ur varðar, og það með út­liti fyrstu kyn­slóðar­inn­ar, þá skyldi maður ætla að sá nýi rynni út eins og heit­ar lumm­ur. Og það er líka reynd­in: þó að bíll­inn sé ekki kom­inn í al­menna sölu ennþá er búið að panta af hon­um rúm­lega 12.000 ein­tök nú þegar. Það er ótrú­leg­ur ár­ang­ur og við blas­ir að Nis­s­an Leaf hef­ur tek­ist að styrkja stöðu sína sem hinn leiðandi raf­bíll á markaðnum. Slíkt get­ur reynst ómet­an­legt þegar fram í sæk­ir og sam­keppn­in harðnar. Verði Leaf al­mennt álit­inn sem „raf­bíll­inn“ á markaðnum, burt­séð frá út­spil­um sam­keppn­isaðil­anna, þá er hon­um tryggður öf­undsverður sess í framtíðinni. Með ljóm­andi vel heppnaðri upp­færslu á Leaf hef­ur Nis­s­an auðveldað raf­sinnuðum bíla­kaup­end­um að velja Leaf og lít­il teikn þess á lofti að for­skot hans réni neitt að ráði í fyr­ir­sjá­an­legri framtíð.

https://www.mbl.is/bill/domar/2018/03/20/hinn_laglegasti_leaf/