Fara í efni

Hér eru all­ir í stuði - bók­staf­lega

Fréttir

Frétt af mbl.is

Veg­ur suðurkór­eska bíla­fram­leiðand­ans Kia held­ur áfram að vaxa, er­lend­is sem hér­lend­is, og nú er svo komið að merkið er í hópi þeirra allra vin­sæl­ustu hér á landi. Það kem­ur út af fyr­ir sig ekki á óvart því bíl­arn­ir eru fal­leg­ir ásýnd­um, þétt­ir og góðir á vegi og velflest­ir skemmti­leg­ir í akstri.

Á síðustu miss­er­um hef­ur Kia fært sig í aukn­um mæli upp á skaftið hvað raf­bíla­væðing­una varðar og er það vel, skref­in sem fyr­ir­tækið hef­ur tekið í þá átt eru vel heppnuð, ekki síst í Optima-bíln­um. Þegar hef­ur verið prófaður Optima Sed­an í hybrid-út­færslu á þess­um vett­vangi, nú er komið að plug-in hybrid.

Lít­il­lega upp­fært út­lit

Frá því sem við höf­um þegar séð af Optima hef­ur tengit­vinn­bíll­inn nett­ar út­lits­upp­færsl­ur til að bera og eru þær smekk­lega fram sett­ar. Þær breyta ekki ásýnd bíls­ins að heitið geti, og í svip má vera að þær fari hrein­lega fram­hjá áhorf­end­um. En sé að gáð – ég tala nú ekki um ef manni er bent á breyt­ing­arn­ar – þá leyna þær sér ekki. Fyrst er að nefna að sæ-græn­blár kennilit­ur er sýni­leg­ur hér og hvar, einkum á sílsa­könt­un­um und­ir hurðaflek­un­um og svo sem lín­ing í fram­grill­inu. Þetta rím­ar við það sem aðrir fram­leiðend­ur hafa gert til að auðkenna raf­bíla sína með lág­stemmd­um hætti frá hinum sem ein­göngu ganga fyr­ir jarðefna­eldsneyti. Og þó, gæt­um að – sagði ég „fram­grill­inu“? Það er þá ekki alls kost­ar rétt því á þess­um bíl er raf­magns­vinnsl­an und­ir­strikuð með því að fylla ein­fald­lega upp í hefðbundið fram­grill, svo það er ein­fald­lega blokk­eraður svart­ur flöt­ur, ekki ósvipað því sem við þekkj­um á Teslu Model S. Eft­ir sem áður er loft­inn­tak í stuðara­svunt­unni en það er engu að síður ákveðin yf­ir­lýs­ing í þess­um frá­gangi. Að öðru leyti er bíll­inn svipaður út­lits því sem við þekkj­um, og Optima er lag­leg­asti bíll. Bíll­inn er bráðvel heppnaður að inn­an sömu­leiðis. Sér­stakt prik fær hann í kladd­ann fyr­ir af­skap­lega gegn­sæja orku­notk­un en ökumaður sér og veit upp á hár hvernig orku­bú­skap­ur­inn fer fram hverju sinni og það sem meira er, bíll­inn held­ur utan um hvort þú ekur spar­lega, venju­lega eða af eyðslu­semi! Sum­ir gætu verið á móti svona at­huga­semd­um frá hendi bíls en ég er með.

Al­mennt gild­ir upp á síðkastið að tvinn­bíl­ar, tengi- eður ei, skarta CVT-gír­skipt­ingu til að deila orku úr bens­ín­vél­inni og frá raf­hlöðunni til hjól­anna. Und­ir­ritaður er ekki í aðdá­enda­klúbbi CVT-sjálf­skipt­inga og því var það einkar þakk­lát upp­götv­un að finna 6 gíra sjálf­skipt­ingu í Kia Optima. Akst­ur­inn verður kunn­ug­lega ánægju­leg­ur og bíll­inn skipt­ir niður þegar gefið er í, í stað þess að fara í hvim­leiðan og mest­an­part­inn gagns­laus­an hvín­andi yf­ir­snún­ing, eins og CVT-gír­kassa er al­mennt hátt­ur. Ólíkt því þá er hér al­menni­legu vinnslu­hljóði fyr­ir að fara, úr eðli­leg­um gír­kassa, og það er sann­ar­lega þakk­arvert. Optim­an er svosem eng­in raketta af stað en bíll­inn er traust­vekj­andi og þétt­ur í akstri og upp­takið er al­veg þokka­legt. Bíll­inn stein­ligg­ur í beygj­um og virk­ar all­ur ramm­gerður og traust­ur.

Væn­leg­ur kost­ur fyr­ir raf­magnaða ökuþóra

Þeir sem eru á annað borð orðnir spennt­ir fyr­ir því að gang­ast raf­bíla­væðing­unni á hönd ættu að meta þann val­kost sem Kia Optima Plug-In hybrid er því hér fæst heil­mik­ill bíll fyr­ir pen­ing­inn. Skott­plássið er gott og geld­ur ekki um of fyr­ir fyr­ir­ferð rahlöðunn­ar eins og víða er til­fellið. Raf­mótor­inn dreg­ur 62 kíló­metra sem er skap­legt fyr­ir tvinn­bíl en mikið má maður hlakka til þess dags þegar staðaldrægni bíla, sem á annað borð inni­halda raf­hlöðu, verður 100 kíló­metr­ar. Eldsneytis­eyðslan er vel ásætt­an­leg, þó ég hafi aldrei verið nærri hinum ein­um og hálfa lítra í blönduðum akstri sem Askja gef­ur upp; það þarf ein­hvern of­ur­mann­leg­an sparakst­ur til að ná því. En tæp­ir fimm lítr­ar eru allt í fína lagi í jafn stór­um bíl, það kvart­ar eng­inn heil­vita ökumaður und­an slíku. Vænt­inga­stjórn­un­in hjá Öskju er þó um­deil­an­leg í þessu til­liti!

Eft­ir stend­ur feiki­vel bú­inn bíll með alls kon­ar fíd­us­um, ekki síst hitaða stýris­hjólið sem ætti for­takslaust að vera staðal­búnaður á Íslandi. Að eiga þess kost að kaupa þenn­an bíl und­ir 5 millj­ón­um telst harla gott.

http://www.mbl.is/bill/domar/2017/10/10/her_eru_allir_i_studi_bokstaflega/

Jón Agn­ar Ólason

jonagn­ar@mbl.is