Fara í efni

Hefur gert allt nema gera við bílana

Fréttir

Erna Gísladóttir, forstjóri BL og einn af eigendum fyrirtækisins, hlaut viðurkenningu Félags kvenna í atvinnulífinu 2018. Erna hefur komið að flestum störfum hjá BL nema viðgerðum á bílum. BL er með umboð fyrir tólf bílategundir og starfsmenn fyrirtækisins eru um 250 talsins.

Erna sagði í síðdegisþættinum Magasíninu á K100 að bílaumboðið BL hafi á síðasta ári selt yfir 6.000 bíla. Hún segir að bílasala sveiflist með efnahag þjóðarinnar og það komi sér því vel fyrir hana að hafa lært hagfræði.

Hálfs árs afgreiðslufrestur frá Japan

Erna nefnir sem dæmi að meta þurfi efnahag þjóðarinnar fram í tímann í ljósi þess að bíla frá Japan verði að panta með hálfs árs fyrirvara. „Það er ekkert mál að skreppa í eina góða utanlandsferð, þú getur unnið aukatíma eða dregið saman, en ef þú ætla að kaupa þér bíl þarftu kannski að hugsa það til lengri tíma,“ sagði Erna í Magasíninu.

Að mati Ernu er bílasala nú svipuð og hún var árið 2005. Máli sínu til stuðnings nefnir hún að ekki sé mikið um aukabíla á heimilum og lántaka sé ekki mikil. Að auki bendir hún á fjölda notaðra bíla á markaðnum.

Íslenskur rússíbani

„Erlendis halda þeir að við séum klikkuð, eitt árið fer allt upp um 50% og svo hrynur þetta. Ég segi oft að þetta sé eins og rússíbani, við förum upp og niður, það er eins og íslenskt lundarfar,“ sagði Erna í viðtali í Magasíninu á K100