Egill Jóhannsson, forstjóri bílaumboðsins Brimborgar, segir að vaxtalausu bílalánin sem þeir, ásamt fleiri umboðum, fóru að veita í byrjun ársins séu ekki ástæðan fyrir þeirri miklu aukningu sem hefur orðið í bílasölu á fyrstu tveimur mánuðum ársins.
„Reynslan nú eftir tvo mánuði er sú að sárafáir hafa nýtt sér þessi lán,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Bílasala hefur heldur betur tekið við sér á árinu en sala á nýjum bílum jókst um 30,3% í febrúar. Nýskráðir fólksbílar í mánuðinum eru 495 samanborið við 380 bíla í febrúar í fyrra. Samtals hafa verið skráðir 1.037 fólksbílar það sem af er árinu og er það 23,5% aukning frá fyrra ári.
Egill bendir á að vöxturinn hafi verið mikill á fyrstu tveimur mánuðum ársins á bæði fólks- og sendibílamarkaðinum. „Hlutdeildin okkar í febrúar var frábær, eða 17,3%, og vorum við einnig með mest selda fólksbílinn, Ford Fiesta. Við getum ekkert kvartað,“ segir hann.
Sterkari króna hjálpar til
Aðspurður hvað skýri þessa miklu aukningu bendir hann meðal annars á að endurnýjunarþörfin sé orðin gríðarleg. Bílaflotinn hafi elst mjög og sé orðinn eldri en gengur og gerist annars staðar.
„Til viðbótar hefur sterkara gengi krónunnar hjálpað til. Innkaupsverð hefur lækkað og umboðin eru að bjóða upp á betri verð og tilboð en áður. Íslendingar verða líka alltaf bjartsýnir þegar krónan styrkist,“ segir hann. Þá hafi samkeppni milli umboðanna jafnframt aukist.
Þess má geta að krónan hefur styrkst um þrjú prósentustig gagnvart Bandaríkjadal á fyrstu tveimur mánuðum ársins.
BL kynnti fyrst vaxtalaus bílalán til sögunnar í byrjun janúarmánaðar. En samkeppnin á markaðinum er hörð og leið ekki langur tími þar til Toyota, Brimborg og Askja fóru einnig að bjóða upp á vaxtalaus bílalán.
Umboðin bjóða kaupendum að borga út sextíu prósent af verðinu fyrir nýjan bíl og er hinum fjörutíu prósentunum skipt niður, vaxtalaust, í þrjú ár. Lánin eru ekki verðtryggð og verða því mánaðargreiðslur þær sömu alla 36 mánuðina. Í einhverjum tilvikum er síðan mögulegt að láta gamla bílinn upp í greiðsluna.
Egill segir að sárafáir hafi nýtt sér tilboðið og að vöxtinn á markaðinum megi því ekki rekja til þess. Fleiri hafi frekar nýtt sér til dæmis beinan afslátt af bílakaupum.
Seinasta ár vonbrigði
Það má segja að seinasta ár hafi verið ár vonbrigða hvað bílasöluna varðar, en aðeins voru 7.913 fólks- og sendibílar seldir.
„Þegar við vorum, í október og nóvember í fyrra, að spá fyrir árið í ár vorum við ekkert mjög bjartsýnir. Við spáðum fyrst að um 8.000 bílar yrðu seldir en þegar líða fór á árið hækkuðum við spána í 8.800 bíla. Nú spáum við hins vegar því að 9.100 til 9.200 bílar verði seldir á árinu,“ nefnir Egill.
Hann segist vera heldur bjartsýnni nú en í fyrra en bendir þó á að salan sé ekki mikil í sögulegu samhengi.
„Til að setja söluna í samhengi þá hefur ársmeðaltið á síðastliðnum fjörutíu árum verið um tíu þúsund bílar. Við erum enn vel undir því, þó svo að spá okkar í ár rætist. Og síðustu tíu ár hefur ársmeðaltalið verið 11.500 bílar.
Þetta er samt mikil framför frá því sem verið hefur frá hruni.“ Segir í frétt á mbl.is