Frétt af mbl.is
Fá farartæki eru sveipuð jafn mikilli fortíðarþrá og Volkswagen T1, bíllinn sem Íslendingum er tamast að kalla einfaldlega „rúgbrauð“ í takt við lögunina sem helst minnir á formbrauðshleif.
Síðustu rúgbrauðin rúlluðu af færibandinu í Brasilíu á gamlársdag 2013, og hétu þá T3, og síðan hafa þessir ástsælu smávagnar ekki verið í framleiðslu. Unnendur þeirra eru þó víða og margir láta sig dreyma um að ný kynslóð VW T-bílanna líti dagsins ljós og það fyrr en seinna.
Nýjar línur, klassískt yfirbragð
Þeirra á meðal er hönnuðurinn David Obendorfer sem hefur dundað sér við að teikna upp nútíma útfærslur á ýmsum klassískum bílum á borð við Fiat 127 og BMW E9. Hann hefur tekið VW rúgbrauðið upp á sína arma og útkoman er slík að internetið hefur tekið eftir því og það rækilega. Eins og glöggt má sjá á myndunum gætir Obendorfer þess að halda í meginþætti upprunalegu hönnunarinnar – við getum kallað það „sálina“ – en um leið hefur allur bragur bílsins verið færður til nútímans með einkar smekklegum hætti. Meðal þess sem rímar við fortíðina eru sveigð horn, kringlóttu framljósin sem eru þegar í stað auðþekkjanleg sem og afturljósin, staðsetning VW-merkisins á framhlið bílsins, krómhlutir hér og hvar ásamt því að hið nýja rúgbrauð er málað í tvílit eins og klassíkin var svo þekkt og dáð fyrir.
Byggður á grunni T6
Obendorfer hefur eingöngu útfært yfirbygginguna og innréttingar, og því liggur ekkert fyrir um hvernig vélakostur væri aftan í honum þessum, enda ekki um opinbera hugmynd á vegum VW að ræða. Þó liggur fyrir að málin smellpassa á grindina af núverandi VW T6-gerðinni. Þeir í höfuðstöðvunum í Wolfsburg myndu því gera rétt í því að skoða þessar pælingar alvarlega því Volkswagen T1 Revival Concept – eins og módelið kallast – eru allrar athygli verðar, svo ekki sé meira sagt.
http://www.mbl.is/bill/frettir/2016/04/25/glaenytt_og_ferskt_rugbraud/