Fara í efni

Fyrsti rafbíllinn í nýrri EQ línu Mercedes-Benz

Fréttir

EQC er sportjeppi með 450 kílómetra drægni. Bíllinn sem kynntur var er með stórum 80 kW rafmótor sem skilar bílnum 402 hestöflum og 512 NM í togi. Í boði verða einnig útfærslur með minni rafmótorum. Bíllinn er framúrstefnulegur og flottur í hönnun en svipar til GLC sportjeppans í stærð og að mörgu leyti í útliti einnig.

 

Mercedes-Benz ætlar sér að vera komið með allt að tíu útgáfur rafbíla árið 2022 og vonast til að þeir muni standa undir 15-25% sölutekna árið 2025. Mercedes-Benz stofnaði árið 2016 nýtt vörumerki innan fyrirtækisins sem ber heitið EQ og vísar í gildi vörumerkisins ,,Emotion and Intelligence".

 

,,EQ mun standa fyrir framleiðslu hreinna rafbíla Mercedes-Benz. Það eru miklar tækniframfarir framundan með tilkomu EQ sem þýðir í raun meira en að þróa og framleiða rafbíla heldur er einnig verið að endurhugsa bíla og samskipti bíla við notendur sína. Það eru því mjög spennandi tímar framundan hjá Mercedes-Benz. Við stefnum á að frumsýna EQC hér á landi næsta sumar og í framhaldi af því fara að taka niður forpantanir," segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdamstjóri Öskju, sem er umboðsaðili Mercedes-Benz á Íslandi.

 

Dieter Zetsche, framkvæmdastjóri Daimler AG sem framleiðir Mercedes-Benz bíla, gerir ráð fyrir að rafbílarnir tíu sem munu líta dagsins ljós á næstu fjórum árum muni höfða til um 60% þess markhóps sem Mercedes-Benz hefur augastað á.