Fara í efni

Fundur Bílgreinasambandsins með Fjármálaráðuneytinu vegna skattlagningar á ökutæki

Fréttir

Bílgreinasambandið átti góðan fund með Fjármálaráðuneytinu í gær, 30. ágúst 2018, þar sem farið var yfir skýrslu um „Skatta á ökutæki og eldsneyti 2020 – 2025“ sem kom út 17. ágúst síðastliðinn. Niðurstaða skýrslunnar er ánægjuleg í grófum dráttum og vel unnin. Tekið hefur verið tillit til ábendinga Bílgreinasambandsins og samvinna hefur verið góð. Á sama tíma er ánægjulegt að sjá sýn til lengri tíma þar sem unnið er með umhverfissjónarmið í huga. Á heildina litið telur Bílgreinasambandið að um góða lendingu sé að ræða.

Ef Alþingi gerir ekki breytingar á skýrslunni og fylgir eftir þeirri vinnu og tillögum sem í henni eru þá verða ekki þær hækkanir á ökutækjum sem vænta mátti. Séð var fram á að með 10 flokka prósentukerfi myndu ökutæki hækka umtalsvert vegna breytinga á fyrirkomulagi á mælingu útblásturs. Skýrslan leggur til að fella niður 10 flokka prósentukerfi um næstu áramót og taka upp línuleg vörugjöld miðað við útblástur ökutækja. Með þeirri leið er verið að koma í veg fyrir hækkunina sem verður að teljast jákvætt fyrir neytendur og bílgreinina í heild sinni.

Það eru þó atriði í skýrslunni sem Bílgreinasambandið fór yfir með Fjármálaráðuneytinu og taldi hafa verið yfirsjón eða þarf að gæta betra samræmis. En samkvæmt skýrslunni getur á árinu 2019 orðið misræmi á vörugjöldum ökutækja. Annað atriði sem Bílgreinasambandið telur að þurfi að endurskoða er að í skýrslunni er breyting á vörugjöldum fornbifreiða og fornbifhjóla 40 ára og eldri. Í dag eru 13% vörugjöld á þennan flokk ökutækja en samkvæmt nýrri tillögu munu þær fara inn í línulega álagningu frá og með árinu 2019 og allar lenda í 65% vörugjaldaflokki. Þriðji þátturinn sem ber að skoða eru vörugjöld á pallbifreiðar. Þar er mikið misræmi og minni léttari ökutæki fá hærri vörugjöld en stærri og meira mengandi pallbifreiðar sem bera í dag 0% vörugjöld. Meirihluti þessara bifreiða er notaður til einkanota og teljum við að þar eigi að gæta samræmis. Við hvetjum þó til að ökutæki notuð í atvinnuskyni eigi að fá niðurfellingar. 

Skýrsluna má nálgast hér til betri lesningar. https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=e301833f-a486-11e8-942c-005056bc530c