Fara í efni

FRÉTTATILKYNNING: BRIMBORG 50 ÁR í BÍLGREININNI

Fréttir

Árið 2014 markar merkileg tímamót í sögu Brimborgar því fyrirtækið fagnar 50 árum í bílgreininni en upphaf félagsins var bílaverkstæðið Ventill sem var stofnað árið 1964 af aðaleiganda Brimborgar. Á þessum 50 árum hefur félagið vaxið og dafnað og breyst í takt við tímann með áherslu á bætta þjónustu og hagræðingu til hagsbóta fyrir bíleigendur á Íslandi.

 

Í dag er Brimborg eitt öflugasta fyrirtæki landsins í innflutningi á farar- og flutningatækjum hvers konar, til atvinnurekstrar eða einkanota. Fyrirtækið rekur í dag bílaumboð, vörubíla- og vélaumboð, bílasölu, bílaleigu og víðtæka viðhalds- og viðgerðarþjónustu í hæsta gæðaflokki. Í tilefni þessara tímamóta munum við vera með ýmis tilboð fyrir viðskiptavini á árinu og höfum þegar byrjað árið af krafti í þeim efnum. 

 

Vegferðin hófst með bílaverkstæðinu Ventli árið 1964 og þá voru starfsmenn fyrirtækisins tveir en stígandi vöxtur var í starfseminni og árið 1971 voru starfsmenn fyrirtækisins orðnir 12 talsins. 

Á einum tímapunkti í sögu fyrirtækisins voru seldar saumavélar en það var einmitt upp úr þeim samningum sem sala og dreifing Daihatsu bifreiða frá Japan hófst árið 1977. Fjöldi starfsmanna var þá 27 manns. 

Rétt rúmum 10 árum síðar hófst innflutningur á bílum, trukkum, rútum, vinnuvélum og Penta bátavélum frá Volvo. Árið 1995 var Ford umboðið tekið yfir og komið á viðskiptasambandi við Ford í Evrópu og Ford í Ameríku. Á næstu árum óx fyrirtækið og dafnaði og opnaði meðal annars útibú á Akureyri. 

Um aldamótin fluttu höfuðstöðvar Brimborgar í nýtt 8000 fermetra húsnæði við Bíldshöfða 6 í Reykjavík. Umboð fyrir bæði Mazda og Citroën bifreiðar bættust svo í hópinn á árunum 2000 til 2005. 

Með aukningu erlendra ferðamanna til landsins var tekið upp samstarf við bandarísku bílaleigurnar Dollar og Thrifty en stuttu áður hafði Brimborg tekið yfir bílaleiguna Saga Car Rental. 

Mannauður hvers fyrirtækis er gríðarlega mikilvægur og þar hefur Brimborg miklu láni að fagna sem sést best á því að margir af 150 starfsmönnum hafa starfað hjá fyrirtækinu í yfir 20 ár og margir mun lengur. Sú tryggð og þekking sem skapast af áratuga reynslu af faginu er ómetanleg í harðri samkeppni. 

Í tilefni þessara merku tímamóta viljum við þakka viðskiptavinum, samstarfsaðilum, starfsmönnum og öðrum hagaðilum fyrir samskiptin síðustu 50 ár. Við lítum björtum augum til framtíðar enda gríðarlega spennandi tímar framundan í bílgreinni sem við hlökkum til að taka þátt í og kynna fyrir viðskiptavinum okkar.