Fara í efni

Forsala Honda-e gengur vel

Fréttir

Forsala á Honda e rafbílnum hefur gengið mjög vel að sögn Jóns Trausta Ólafssonar, framkvæmdastjóra Bílaumboðsins Öskju. Honda-e var forsýndur hér á landi síðustu tvær helgar og hófst þá jafnframt forsala á bílnum.

,,Honda e er fyrsti rafbíll Honda en öll lína Honda verður rafknúin fyrir lok árs 2022, annars vegar með Hybrid bílum og svo með hreinum rafbílum. Askja fær fyrstu bílanna til afhendingar í sumar og er einn af fyrstu mörkuðum Honda e í Evrópu. Þetta er bíll sem hefur verið beðið eftir með mikilli eftirvæntingu og það er sérlega gaman að hafa fengið að forsýna bílinn hér heima. Þetta var einn af þremur Honda e rafbílum í heiminum hér í Honda salnum á Fosshálsi 1, en bíllinn var svo sendur aftur út með flugi á sunnudag," segir Jón Trausti.

Honda e er því nýjasta viðbótin í úrval rafbíla á Íslandi. Honda e er 154 hestafla rafbíll og togið 315 Nm sem skilar tafarlausri og þýðri hröðun án gírskiptinga. Akstursdrægi Honda e er allt að 220 km. Bíllinn er hlaðinn í gegnum aðgengilegt hleðsluinntak á vélarhlífinni. Búnaðinum fylgir LED mælir sem sýnir á einfaldan hátt hleðslustöðu rafgeymisins. Hægt er að ná 80% hleðslu inn á rafhlöðu á 30 mínútum.