Frétt af mbl.is
Þrátt fyrir að bílainnflutningur hafi stóraukist á síðasta ári er minna um lánveitingar og lánin eru lægri. „Fólk stígur varlegar til jarðar,“ segir Haraldur Ólafsson, forstöðumaður útlánasviðs hjá Ergo.
Tíðar fréttir berast af aukinni bílasölu og er hægt að segja að tölurnar séu farnar að líkjast því sem sást fyrir hrun. Samkvæmt Bílgreinasambandi Íslands voru alls fluttir inn 9.207 bílar á fyrstu fimm mánuðum ársins samanborið við 6.208 bíla á sama tíma í fyrra. Alls voru fluttir inn 9.536 bílar á árinu 2014 og er því ljóst að einungis innflutningurinn á fyrstu fimm mánuðum ársins er nánast á pari við allt árið 2014.
Haraldur bendir á að fyrir hrun hafi jafnan verið talað um að um 70 prósent af bílakaupum væru lánsfjármögnuð en telur hann hlutfallið vera nær 45 prósentum í dag. „Fólk er mjög meðvitað,“ segir hann. „Þetta eru lág hlutföll og fólk kýs fremur skamman lánstíma til að eignast bílinn hraðar.“
„Markaðurinn stígur varlega til jarðar og það er hið besta mál fyrir alla,“ segir Haraldur.
Bílainnflutningur hefur aftur stóraukist en stór hluti þess fer beint á bílaleigu landsins. Eintökin rata síðan á almennan markað eftir um það bil tvö ár.
Mikil endurnýjunarþörf
Þá segir hann það jafnan gleymast í umræðunni að aukinn bílainnflutningur sé að miklu leyti knúinn áfram af bílaleigum sem hafa þurft að styrkja flotann sökum aukins fjölda ferðamanna. „Þegar við erum einungis að tala um almenna eða fyrirtækjamarkaðinn eru þeir langt frá því að vera í sögulegu hámarki.“ Haraldur bætir þó við að bílaleigubílarnir fari að lokum út á einstaklingsmarkaðinn en telur hann markaðinn vel geta tekið við því sökum mikillar endurnýjunarþarfar.
Algengt hefur verið að bílaleigubílar séu seldir út á almenna markaðinn við tveggja ára aldur en á þeim tíma jafnast notkun þeirra á við það sem almennt gerist hjá þriggja til fjögurra ára gömlum bílum. Þeir hafa því jafnan styttri endingartíma en aðrir bílar og þar með minna vægi í endurnýjun flotans í heild.
Haraldur bendir á að gríðarlega margir bílar hafi selst til einstaklinga á árunum 2005 til 2008 og vísar til þess að Íslendingar hafi endurnýjað bílaflota sinn á þessum árum. Þessi eintök séu í dag átta til ellefu ára gömul og flest þeirra enn á götunni.
Á árunum 2009 til 2014 hafi bílasala síðan verið afar lítil og langt undir meðaltali. Þetta hafi leitt til þess að meðalaldur bílaflotans hækkaði mikið og er því mikil endurnýjunarþörf fyrirséð. Til frekari útskýringar má benda á að árið 2005 seldust 16.421 bíll á almenna markaðnum en árið 2015 seldust 7.195 bílar á almenna markaðnum.
Stóraukin kaup hjá bílaleigum
Það sem Haraldur segir einkenna bílamarkaðinn í dag og í raun alveg frá árinu 2009 er hversu hátt hlutfall bílaleigubíla er af seldum nýjum bílum. Hlutfall bílaleigubíla af öllum nýskráðum bílum var til dæmis 43% árið 2015 en 9% árið 2005. Þróunin hefur haldið áfram á þessu ári og hefur sala til bílaleiga verið stór hluti heildarsölunnar.
Til að mynda keyptu bílaleigur alls 74,2% allra nýskráðra bíla í maí sl. og í apríl var hlutfallið 52,9%.
Hafa ber þó í huga að á fyrri hluta árs eru bílaleigur vanalega með hærra hlutfall af seldum bílum þar sem að það er tíminn sem þær nota til að endurnýja og eða stækka flotann fyrir sumarið. Almenni markaðurinn er svo jafnari yfir árið. Spá Ergo fyrir 2016 er að hlutfall bílaleigubíla verði það sama og árið 2015 eða um 43% af öllum seldum nýjum bílum.
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/06/06/fleiri_bilar_en_faerri_bilalan/