Fara í efni

Fjór­hjóla­drif­inn fjöl­skyldu­bíll

Fréttir

Frétt af www.mbl.is

Ný B-lína frá Mercedes-Benz hef­ur fengið and­lits­lyft­ingu en það sem meira er um vert og þá sér­stak­lega fyr­ir ís­lensk­an markað er að hann er nú fá­an­leg­ur með 4Matic-fjór­hjóla­drif­inu.

Þar með nær hann að aðgreina sig frá nýj­um keppi­naut­um á þess­um markaði, bíl­um eins og BMW 2 Acti­ve Tourer og VW Sportsvan. Útlits­breyt­ing­arn­ar eru litl­ar ut­an­dyra og eru mest bundn­ar við fram­enda bíls­ins. Hann hef­ur fengið end­ur­hannaða stuðara og fram­ljós, stærri loft­inn­tök og grill. Útlits­breyt­ing­arn­ar eru þó meiri inn­an­dyra eins og við kom­umst að þegar blaðamaður Morg­un­blaðsins reynsluók hon­um á dög­un­um.

Flott­ur á því að inn­an

Óhætt er að segja að bíll­inn sé orðinn mjög ný­tísku­leg­ur í hönn­un inn­an­dyra þar sem efn­is­valið er til fyr­ir­mynd­ar. Lagt er upp úr stæl­um eins og króm­hringj­um í kring­um miðstöðvartúður og díóðulýs­ingu í mæla­borðinu sem hægt er að skipta um lit á gegn­um akst­urstölv­una, kannski eft­ir því í hvaða skapi bíl­stjór­inn er? Fyr­ir miðju er kom­inn stærri lita­skjár sem sýn­ir hljóm­tæki, sím­búnað og bakk­mynda­vél ásamt akst­urstölv­unni. Aðgerðum er stjórnað gegn­um skruntakka í miðju­stokki, örvatökk­um í stýri eða ein­fald­lega með til­heyr­andi hnöpp­um í mæla­borði sem get­ur verið nokkuð flókið að læra á til að byrja með. Maður velt­ir því ósjálfrátt fyr­ir sér hvort það hefði ekki verið ein­fald­ara að koma bara með snerti­skjá til að losna við allt þetta takka­flóð. Nóg er af hólf­um og hirsl­um kring­um öku­mann nema að aðeins eitt glasasta­tíf er til staðar og það er aðeins fyr­ir litl­ar gos­flösk­ur. Stærri drykkjar­mál rúm­ast ein­fald­lega ekki í því.

Aft­ur­sæt­in bestu sæt­in

Rými fyr­ir farþega er all­gott í B-lín­unni og sæt­in stór og þægi­leg. Sæt­in aft­ur í eru einnig rúm­góð en miðju­sæti er með styttri setu en þau sem til hliðar eru. Það hef­ur sína kosti þar sem fótapláss er meira og auðveld­ara að ganga um bíl­inn, sér­stak­lega fyr­ir smá­fólkið. Eins eru aft­ur­dyr stór­ar og því mjög þægi­legt að ganga um hann við aft­ur­sæt­in, sem og bjástra við barna­bíl­stól­ana. Aðgengi í fram­sæti er ekki eins gott og er það aðallega breiður B-biti sem flæk­ist aðeins fyr­ir, en hann heft­ir líka aðeins út­sýni til hliðanna. Meðalmaður eins og bíla­blaðamaður Morg­un­blaðsins still­ir sæti sitt á þann veg að horfi hann beint til hliðar byrg­ir B-bit­inn hon­um sýn. Far­ang­urs­rými er mjög gott og er 486 lítr­ar með aft­ur­sæt­in í upp­réttri stöðu en fer í heila 1.547 lítra með því að fella þau niður. Eins eru hólf und­ir gólf­inu og til hliðanna auk hlera við miðju­sæti sem má opna til að koma fyr­ir lengri hlut­um.

Há­vær dísil­vél

Að aka bíln­um með fjór­hjóla­drifi er ótví­ræður kost­ur í vetr­ar­færðinni og bæt­ir akst­ur­seig­in­leika bíls­ins, sem voru ekk­ert slæm­ir fyr­ir. Að vísu er fjöðrun­in í stífara lagi og þess vegna var maður ekk­ert að nota mikið sport­still­ing­una sem virt­ist hafa áhrif á hana líka. Í henni skipt­ir bíll­inn sér seinna og þá er líka farið að heyr­ast frek­ar mikið í dísil­vél­inni, sem er í há­vær­ari kant­in­um. Það trufl­ar und­ir­ritaðan alltaf þegar sjálf­skipt­ing er lengi að taka við sér úr kyrr­stöðu eins og farið er um þenn­an bíl. Gild­ir þá einu hvort bíll­inn er í sport­still­ingu eða sparstill­ingu. Bíll­inn legg­ur vel á og er nokkuð lip­ur í akstri inn­an­bæjar fyr­ir bíl í þess­um stærðarflokki.

Svipað verð 4Matic og 2-línu BMW

Sú staðreynd að B-lín­an er sú eina í þess­um flokki sem boðin er sem fjór­hjóla­drifs­bíll er ótví­ræður kost­ur í þess­um flokki. Ekki skemm­ir held­ur fyr­ir að grunn­verð hans er vel boðlegt en hann kost­ar frá 4.590.000 kr. Fjór­hjóla­drif­inn er hann kom­inn í 5.890.000 kr og þá ein­ung­is með sjálf­skipt­ingu. Aðal­keppi­naut­ur B-línu er BMW 2-lína Acti­ve Tourer sem er aðeins til í einni út­færslu, 218d á 5.290.000 kr. Sjálf­skipt­ur er hann kom­inn í 5.720.000 kr. sem er nán­ast sama verð og fyr­ir B-línu í 4Matic-út­færslu. VW Golf Sportsvan er reynd­ar oft bor­inn sam­an við þessa tvo bíla en hann byrj­ar reynd­ar aðeins í 3.490.000 kr. en þá með 1,2 lítra TSI-vél. Rétt­ara er að miða við grunn­verð TDI-dísil­bíls­ins með 1,6 lítra vél­inni. Sá bíll kost­ar frá 3.910.000 kr með sex gíra bein­skipt­ingu.

http://www.mbl.is/bill/domar/2015/04/08/fjorhjoladrifinn_fjolskyldubill/