FÍB, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, hefur sent Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra áskorun um að grípa tafarlaust til aðgerða til að stöðva yfirvofandi gripdeildir tryggingafélaga úr sjóðum sem eru í eigu viðskiptavina þeirra.
Þrjú tryggingafélög hafa kynnt fyrirætlanir um samtals 8,5 milljarða króna arðgreiðslur á næstu dögum. Fjármunina á að taka úr bótasjóðum sem tryggingafélögin hafa safnað með uppsprengdum iðgjöldum af ofáætluðum tjónum.
Fjármálaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir það að eigendur tryggingafélaganna tæmi bótasjóðina og stingi þeim í eigin vasa. FÍB hvetur ráðherra til að taka í taumana með því að gefa stjórn Fjármálaeftirlitsins fyrirmæli um að sinna lögbundnu eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu. FÍB segir að FME vanræki skyldur sínar við almenning og hugsi eingöngu um hag fjármálafyrirtækja og fjárfesta. Því verði að breyta.
FÍB bendir á að FME hafi ríkar heimildir til að hlutast til um fjármál og rekstur tryggingafélaganna. FME geti skipað þeim að endurgreiða tryggingatökum eign þeirra í bótasjóðunum eða nota fjármunina til að lækka iðgjöld næstu árin.
FÍB bendir jafnframt á að ef FME ætlar að láta þessa sjálftöku afskiptalausa, þá yrði það í annað sinn á einum áratug sem stofnunin horfir aðgerðalaus á eigendur tryggingafélaga tæma bótasjóði sem þeir eiga ekki.