Fara í efni

Euro NCAP gefur nýjum Santa Fe 5 öryggisstjörnur

Fréttir

Euro NCAP gefur nýjum Santa Fe 5 öryggisstjörnur

Ný kynslóð Hyundai Santa Fe, sem nýlega var kynntur hér á landi, hefur hlotið fullt hús öryggisstiga, 5 stjörnur, hjá evrópsku öryggisstofnuninni Euro NCAP (European New Car Assessment Programme).

Fjórhjóladrifni jepplingurinn Santa Fe, flaggskip Hyundai á Evrópumarkaði, er á meðal öruggustu meðalstóru jepplinganna í sínum flokki (D-SUV) á markaðanum í dag. Í niðurstöðu Euro NCAP um öryggi fjórðu kynslóðar Santa Fe er sérstaklega tekið til mikils styrkleika yfirbyggingar bílsins sem verndar vel öryggi barna og fullorðinna farþega, og öryggiskerfisins SmartSense sem uppfyllir allar ströngustu Evrópukröfurnar sem nú eru gerðar í Evrópu.

Umhugað um öryggi farþeganna

Yfirbygging Santa Fe er hástyrkt og veitir framúrskarandi viðnám gagnvart höggi. Enda þótt hún sé léttari en í fyrri bíl eru 57% yfirbyggingarinnar úr hástyrktu stáli sem er hæsta hlutfall Hyundaibíla. Santa Fe er búinn öllum helstu tækninýjungum Hyundai á sviði öryggis- og aðstoðarkerfa sem eru hluti af heildstæða SmartSense öryggiskerfinu. Meðal nýjunga má nefna blindblettsviðvörun, akreinavara, aukna vöktun á umferð gangandi fólks og bíla fyrir aftan og þegar bílnum er bakkað og virkjast hemlarnir sjálfkrafa sé öryggi ábótavant. Þá getur Santa Fe læst dyrum bílsins tímabundið meti öryggiskerfið það sem svo að ekki sé óhætt að yfirgefa bílinn vegna bíls sem nálgast fyrir aftan. Þá er nýr Santa Fe einnig kominn með gagnvirkan hraðastilli sem tekur tillit til hraða bíla á undan og hægir á honum ef á þarf að halda til að tryggja örugga fjarlægð frá næsta bíl.

Öryggi Hyundai

Meðal annarra fólksbíla sem hlotið hafa hæstu öryggiseinkunn Euro NCAP eru i30, Kona, Tucson og Ioniq auk þess sem rafknúni vetnisbíllinn Nexo hefur þegar hlotið 5 stjörnur fyrir gott alhliða öryggi. Nexo er fyrsti rafknúni vetnisbíllinn til að hljóta fyrstu einkunn Euro NCAP.