Frétt af mbl.is
Meðalaldur bandaríska bílaflotans mun hækka um ókomin ár, að því er virðist, því að fólk heldur lengur í bíla sína, bæði nýja sem Notaða. Það er víðar en á Íslandi sem bílafloti landsmanna eldist. Það á einnig við í bílalandinu mikla, sjálfum Bandaríkjunum. Meðalaldur fólksbíla og léttra atvinnubíla í notkun í umferðinni þar í landi er 11,5 ár, aðeins lægri en á Íslandi, þar sem meðaldurinn er 12,7 ár. Að sögn Bílgreinasambandsins er íslenski bílaflotinn sá þriðji elsti í Evrópu. Er meðalaldur alls bílaflota landa Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins 8,6 ár. Greiningarfyrirtækið IHS Automotive hefur rannsakað meðalaldur bíla í Bandaríkjunum og segir hann hafa farið hækkandi en uppsveifla í bílasölu síðustu misseri hafi hægt á hraða öldrunarinnar. Fyrir allt árið í fyrra, 2014, var hann 11,4 ár. Helstu ástæður aldurshækkunarinnar, að sögn IHS Automotive, er að bílar eru betur smíðaðir í seinni tíð og endast því mun betur en áður. Þótt dregið hafi úr öldrun flotans muni meðalaldurinn áfram hækka og verða 11,6 ár árið 2016 og 11,7 ár árið 2018. Mörgum finnst ný upplýsinga- og skemmtikerfi bíla fráhrindandi og sækjast því síður eftir nýrri gerðum bíla sem hafa þau innanstokks.
Aldur bílaflotans hækkaði mjög hratt á árunum 2008 til 2013 vegna hruns í sölu nýrra fólks- og pallbíla af völdum efnahags- og fjármálakreppunnar. Samfara efnahagslegri uppsveiflu síðustu ára hefur aukin bílasala hægt á öldruninni, sem fyrr segir. Allt útlit er fyrir að sala nýrra bíla í ár verði meiri en í fyrra.
Heildarfjöldi bíla á bandarísku bifreiðaskránni fyllir 258 milljónir og hefur aldrei verið meiri. Jókst hann um 2,1% frá í fyrra. Nýskráningar eru 42% fleiri en afskráningar bíla sem sendir hafa verið til niðurrifs.
Á fyrsta fjórðungi ársins var meðaltími eignarhalds á nýjum bíl 77,8 mánuðir, eða hálft sjöunda ár. Þessi eignarhaldstími hafði aukist um 26 mánuði frá sama tímabili árið 2006. Þróunin var á sama veg hvað varðar notaða bíla, hann er nú 63 mánuðir og hefur aukist um 25 mánuði frá 2006. Á þessu má sjá að bandarískir neytendur halda lengur í bíla sína hvort sem þeir eru nýir eða notaðir, alveg óháð því hversu gamlir bílarnir eru.
Lengri afborgunartími
Ástæðan fyrir þessari þróun er í fyrsta lagi sú að bílar voru áður fyrr lélegri smíðisvara en nú. Meiri gæði hafa leitt til þess að eigendaskipti eiga sér sjaldnar stað og lengra líður á milli þeirra. Í öðru lagi hefur stöðugt hækkandi kaupverð leitt til þess að kaupendur hafa tekið lengri bílalán við kaup á nýjum bílum. Afborgunartími þeirra hefur lengst í sex til sjö ár og afleiðingarnar eru þær að kaupendur halda bílnum að minnsta kosti í þann tíma.
Í þriðja lagi koma til nýjar áherslur í daglegu lífi fólks – og ný forgangsröðun. Hafa fjölskyldubílar minnkað sem afleiðing af breyttum lífsstíl. Enn fremur hefur notkun almennings samgangna aldrei verið meiri í sögunni en á síðustu misserum. Þá hefur aukist að bílar séu samnýttir af mörgum til aksturs til og frá vinnu. Loks hefur sportlegri samgöngumáti verið í uppsveiflu, eins og að hlaupa eða hjóla vegna erindreksturs eða ferðalaga úr og í vinnu.
Þessu til viðbótar má nefna að þrátt fyrir að kannanir sýni að kaupendur nýrra bíla vilji að þeir séu búnir nýjustu tækni, nettengingu o.fl., kvarta kaupendur í auknu mæli undan upplýsinga- og skemmtikerfum. Segja erfitt og flókið að brúka þau auk þess sem þau séu bilanagjörn, að ekki sé talað um möguleikann á að tölvuþrjótar brjótist inn í þau, sem er vaxandi vá í Bandaríkjunum sem víðar.
http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/08/11/medalaldur_bila_haekkar_og_haekkar/