Fara í efni

Efna­hagsþreng­ing­ar ell­egar bet­ur smíðaðar bif­reiðar?: Meðal­ald­ur bíla hækk­ar og hækk­ar í Banda­ríkj­un­um

Fréttir

Frétt af mbl.is

Meðal­ald­ur banda­ríska bíla­flot­ans mun hækka um ókom­in ár, að því er virðist, því að fólk held­ur leng­ur í bíla sína, bæði nýja sem Notaða. Það er víðar en á Íslandi sem bíla­floti lands­manna eld­ist. Það á einnig við í bíla­land­inu mikla, sjálf­um Banda­ríkj­un­um. Meðal­ald­ur fólks­bíla og léttra at­vinnu­bíla í notk­un í um­ferðinni þar í landi er 11,5 ár, aðeins lægri en á Íslandi, þar sem meðald­ur­inn er 12,7 ár.                                                                                                                              Að sögn Bíl­greina­sam­bands­ins er ís­lenski bíla­flot­inn sá þriðji elsti í Evr­ópu. Er meðal­ald­ur alls bíla­flota landa Evr­ópu­sam­bands­ins og Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins 8,6 ár. Grein­ing­ar­fyr­ir­tækið IHS Automoti­ve hef­ur rann­sakað meðal­ald­ur bíla í Banda­ríkj­un­um og seg­ir hann hafa farið hækk­andi en upp­sveifla í bíla­sölu síðustu miss­eri hafi hægt á hraða öldrun­ar­inn­ar. Fyr­ir allt árið í fyrra, 2014, var hann 11,4 ár. Helstu ástæður ald­urs­hækk­un­ar­inn­ar, að sögn IHS Automoti­ve, er að bíl­ar eru bet­ur smíðaðir í seinni tíð og end­ast því mun bet­ur en áður. Þótt dregið hafi úr öldrun flot­ans muni meðal­ald­ur­inn áfram hækka og verða 11,6 ár árið 2016 og 11,7 ár árið 2018. Mörg­um finnst ný upp­lýs­inga- og skemmti­kerfi bíla frá­hrind­andi og sækj­ast því síður eft­ir nýrri gerðum bíla sem hafa þau inn­an­stokks.

Ald­ur bíla­flot­ans hækkaði mjög hratt á ár­un­um 2008 til 2013 vegna hruns í sölu nýrra fólks- og pall­bíla af völd­um efna­hags- og fjár­málakrepp­unn­ar. Sam­fara efna­hags­legri upp­sveiflu síðustu ára hef­ur auk­in bíla­sala hægt á öldrun­inni, sem fyrr seg­ir. Allt út­lit er fyr­ir að sala nýrra bíla í ár verði meiri en í fyrra.

Heild­ar­fjöldi bíla á banda­rísku bif­reiðaskránni fyll­ir 258 millj­ón­ir og hef­ur aldrei verið meiri. Jókst hann um 2,1% frá í fyrra. Ný­skrán­ing­ar eru 42% fleiri en af­skrán­ing­ar bíla sem send­ir hafa verið til niðurrifs.

Á fyrsta fjórðungi árs­ins var meðal­tími eign­ar­halds á nýj­um bíl 77,8 mánuðir, eða hálft sjö­unda ár. Þessi eign­ar­halds­tími hafði auk­ist um 26 mánuði frá sama tíma­bili árið 2006. Þró­un­in var á sama veg hvað varðar notaða bíla, hann er nú 63 mánuðir og hef­ur auk­ist um 25 mánuði frá 2006. Á þessu má sjá að banda­rísk­ir neyt­end­ur halda leng­ur í bíla sína hvort sem þeir eru nýir eða notaðir, al­veg óháð því hversu gaml­ir bíl­arn­ir eru.

Lengri af­borg­un­ar­tími

Ástæðan fyr­ir þess­ari þróun er í fyrsta lagi sú að bíl­ar voru áður fyrr lé­legri smíðis­vara en nú. Meiri gæði hafa leitt til þess að eig­enda­skipti eiga sér sjaldn­ar stað og lengra líður á milli þeirra. Í öðru lagi hef­ur stöðugt hækk­andi kaup­verð leitt til þess að kaup­end­ur hafa tekið lengri bíla­lán við kaup á nýj­um bíl­um. Af­borg­un­ar­tími þeirra hef­ur lengst í sex til sjö ár og af­leiðing­arn­ar eru þær að kaup­end­ur halda bíln­um að minnsta kosti í þann tíma.

Í þriðja lagi koma til nýj­ar áhersl­ur í dag­legu lífi fólks – og ný for­gangs­röðun. Hafa fjöl­skyldu­bíl­ar minnkað sem af­leiðing af breytt­um lífs­stíl. Enn frem­ur hef­ur notk­un al­menn­ings sam­gangna aldrei verið meiri í sög­unni en á síðustu miss­er­um. Þá hef­ur auk­ist að bíl­ar séu sam­nýtt­ir af mörg­um til akst­urs til og frá vinnu. Loks hef­ur sport­legri sam­göngu­máti verið í upp­sveiflu, eins og að hlaupa eða hjóla vegna er­ind­rekst­urs eða ferðalaga úr og í vinnu.

Þessu til viðbót­ar má nefna að þrátt fyr­ir að kann­an­ir sýni að kaup­end­ur nýrra bíla vilji að þeir séu bún­ir nýj­ustu tækni, netteng­ingu o.fl., kvarta kaup­end­ur í auknu mæli und­an upp­lýs­inga- og skemmti­kerf­um. Segja erfitt og flókið að brúka þau auk þess sem þau séu bilana­gjörn, að ekki sé talað um mögu­leik­ann á að tölvuþrjót­ar brjót­ist inn í þau, sem er vax­andi vá í Banda­ríkj­un­um sem víðar.

http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/08/11/medalaldur_bila_haekkar_og_haekkar/