Fara í efni

BGS á fundi CECRA í London

Fréttir
Hópurinn sem fundaði í London
Hópurinn sem fundaði í London

Bílgreinasambandið er hluti af CECRA og tekur virkan þátt í því starfi sem þar fer fram. CECRA stendur fyrir "Conseil Europeén du Commerce et de la Réparation Automobiles" eða á ensku "European Council for Motor Trades and Repairs" og er það regnhlífarsamband fyrir ýmis landssamtök bílgreina (söluaðila, verkstæða og fleiri) í Evrópu.

Fundur hjá sviði verkstæða CECRA
Samstarf meðlima CECRA skiptist í nokkur mismunandi svið eftir viðfangsefnum, og hittast viðeigandi félagsmenn reglulega til að fjalla um málefni hvers sviðs. Þann 19. nóvember síðastliðinn var haldinn fundur hjá sviði verkstæða þar sem ýmis málefni er snerta starfsemi verkstæða voru tekin fyrir. Fundurinn var haldinn í London og fór fulltrúi BGS á fundinn – en líkt og á aðalfundi CECRA í Brussel í september þá er augljóst að aðilar innan bílgreinarinnar í Evrópu eru að kljást við mjög sambærileg mál og við gerum hér á Íslandi, enda er meirihluti regluverks í Evrópu innleitt hér.

Gestgjafi fundarins að þessu sinni var IGA (Independent Garage Sector), eða samband sjálfstæðra verkstæða í Bretlandi, sem er að mestu leyti samansett af litlum og meðalstórum verkstæðum sem hafa einungis 1-2 starfsstöðvar. Sambandið er gríðarlega stórt með þúsundir meðlima og tugi starfsmanna á sínum snærum og leggur sig fram um að vinna ákaft að hagsmunum félagsmanna sinna.

Móttökurnar voru góðar og öruggt að samskipti og samstarf IGA og BGS muni verða meira í framtíðinni. Líkt og á aðalfundi CECRA í september þá var sérstakt gleðiefni að finna hversu mikil ánægja ríkir á meðal stjórnenda og félagsmanna CECRA að BGS skuli nú að nýju taka virkan þátt í starfseminni og telja að það muni styrkja starf samtakanna.

Upplýsingar á tækniöld
Hraði tæknibreytinga í bílageiranum er mikill um þessar mundir og á það ekki síst við um stafrænar upplýsingar sem verða til í bílunum okkar. Árið 2025 má gera ráð fyrir að allt að 70% ökutækja á götunni verði „tengd“ ökutæki í þeim skilningi að þau hafi tækni til að búa til upplýsingar, vista þær, og miðla frá sér með einum eða öðrum hætti.

Þessi aukna tæknilega geta ökutækja til að búa til, miðla og jafnvel taka á móti upplýsingum getur leitt til þróunar á ýmsum tæknilausnum og þjónustu almennum neytendum til hagsbóta, ekki endilega bara hjá bílaframleiðendum heldur einnig hjá sjálfstæðum þriðju aðilum. Því hefur CECRA ásamt 11 öðrum samböndum innan evrópsku bílgreinarinnar nú gefið út yfirlýsingu þar sem kallað er eftir því að tryggt verði jafnt aðgengi að upplýsingum svo öruggt sé að allir samkeppnisaðilar á markaði hafi möguleika á að þróa tæknilausnir og geta þjónustað bíla byggt á þessum tækniframförum – frekar en að bílaframleiðendur sitji einir að þeim.

Yfirlýsinguna/áskorunina sem um ræðir má finna í heild sinni HÉR og áhugavert myndband um málefnið má einnig finna hér neðst í fréttinni.

Niðurskrúfun á kílómetrastöðum bíla
Þetta mál hefur verið í brennidepli í Evrópu, eins og hér á landi, og eru úrbætur á þessum vettvangi  raunar eitt af stóru stefnumálum CECRA inn í framtíðina. Því fékk þetta mál mikið vægi á fundinum í London þar sem fólki er umhugað að auka traust almennings á markaði notaðra bíla. Meðal hugmynda sem komið hafa fram er að byggja upp miðlægan gagnagrunn þar sem skráning á kílómetrastöðu bíla eigi sér stað við hverja einustu „snertingu“ þjónustuaðila – sama hvort það er við smurningu, viðgerð, aðalskoðun, eða hvað sem er. Einnig að framleiðendur vinni að því að gera niðurskrúfun kílómetramæla ómögulega.

CECRA mun beita sér þungt gagnvart stjórnvöldum í Evrópu á næstu misserum til að koma upp strangara regluverki og refsingum vegna kílómetrasvindls, en áætlað er að svik vegna kílómetrastöðu kosti Evrópubúa sem nemur allt að 8,9 milljarða evra á ári.

SERMI
Líkt og með tænimál almennt og áherslu CECRA um jafnan aðgang allra aðila á markaðnum að gögnum, þá var rætt um áframhaldandi uppbyggingu og útfærslu á SERMI (SEcurity related Repair and Maintanence Information), en finna má nánari upplýsingar um það HÉR.