www.mbl.is
Óhætt er að segja að Mercedes-Benz eigi í meðvindi. Nýjustu landvinningar þýska bílsmiðsins eru þeir, að hann varð hlutskarpastur í þremur flokkum af fimm er viðurkenningar voru veittar fyrir bíl ársins á bílasýningunni sem nú stendur yfir í New York.
Var Mercedes C-Class valinn bíll ársins 2015 úr hópi samtals 24 bíla. Á lokasprettinum stóð valið milli þriggja bíla, eða C-Class, Volkswagen Passat, bíls ársins í Evrópu, og Ford Mustang. Meirihluti dómnefndar greiddi stjörnunni frá Stuttgart atkvæði og lofaði bílinn fyrir gæði, íburð, öryggi, þægindi og góða aksturseiginleika.
Á sýningunni í New York var einnig útdeilt titlinum lúxusbíll ársins en hann vann Mercedes S-Class Coupe. Titilinn sportbíll ársins kom einnig í hlut Mercedes, en þar varð hlutskarpastur Mercedes-AMG GT.
Citroen C4 Cactus var útnefndur bílhönnun ársins 2015. Útlitið er býsna sérstakt en hefur fallið í kramið hjá ganrýnendum og kaupendum líka.
Í þeim tveimur flokkum sem eftir voru fóru BMW i8 og Citroën C4 Cactus með sigur af hólmi. i8 var útnefndur Grænbíll ársins og Cactus var valinn besta bílahönnun ársins. Í dómnefnd heimsverðlaunanna voru 75 bílablaðamenn frá 22 löndum, þar af eru fjórar konur, tvær bandarískar, ein indversk og ein hollensk. Í dómnefndinni er aðeins einn norrænn bílablaðamaður, en hann er sænskur.
Þetta var í 11. sinn sem viðurkenningin Heimsbíll ársins er veitt og hafa þýskir bílar komið vel frá þeim, sérstaklega þó bílar frá Volkswagen. Titlana hafa hlotið eftirfarandi: Audi A3 (2014), VW Golf (2013), VW Up (2012), Nissan Leaf (2011), VW Polo (2010), VW Golf (2009), Mazda 2/Mazda Demio (2008), Lexus LS460 (2007), BMW 3-serían (2006) og Audi A6 (2005).
http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/04/14/c_class_heimsbill_arsins_2015/