Fara í efni

C-class heims­bíll árs­ins 2015

Fréttir

www.mbl.is

Óhætt er að segja að Mercedes-Benz eigi í meðvindi. Nýj­ustu land­vinn­ing­ar þýska bílsmiðsins eru þeir, að hann varð hlut­skarp­ast­ur í þrem­ur flokk­um af fimm er viður­kenn­ing­ar voru veitt­ar fyr­ir bíl árs­ins á bíla­sýn­ing­unni sem nú stend­ur yfir í New York.

Var Mercedes C-Class val­inn bíll árs­ins 2015 úr hópi sam­tals 24 bíla. Á loka­sprett­in­um stóð valið milli þriggja bíla, eða C-Class, Volkswagen Passat, bíls árs­ins í Evr­ópu, og Ford Mu­stang. Meiri­hluti dóm­nefnd­ar greiddi stjörn­unni frá Stutt­g­art at­kvæði og lofaði bíl­inn fyr­ir gæði, íburð, ör­yggi, þæg­indi og góða akst­ur­seig­in­leika.

Á sýn­ing­unni í New York var einnig út­deilt titl­in­um lúx­us­bíll árs­ins en hann vann Mercedes S-Class Coupe. Titil­inn sport­bíll árs­ins kom einnig í hlut Mercedes, en þar varð hlut­skarp­ast­ur Mercedes-AMG GT.

Citroen C4 Cact­us var út­nefnd­ur bíl­hönn­un árs­ins 2015. Útlitið er býsna sér­stakt en hef­ur fallið í kramið hjá gan­rýn­end­um og kaup­end­um líka.

Í þeim tveim­ur flokk­um sem eft­ir voru fóru BMW i8 og Citroën C4 Cact­us með sig­ur af hólmi. i8 var út­nefnd­ur Græn­bíll árs­ins og Cact­us var val­inn besta bíla­hönn­un árs­ins. Í dóm­nefnd heimsverðlaun­anna voru 75 bíla­blaðamenn frá 22 lönd­um, þar af eru fjór­ar kon­ur, tvær banda­rísk­ar, ein ind­versk og ein hol­lensk. Í dóm­nefnd­inni er aðeins einn nor­rænn bíla­blaðamaður, en hann er sænsk­ur.

Þetta var í 11. sinn sem viður­kenn­ing­in Heims­bíll árs­ins er veitt og hafa þýsk­ir bíl­ar komið vel frá þeim, sér­stak­lega þó bíl­ar frá Volkswagen. Titl­ana hafa hlotið eft­ir­far­andi: Audi A3 (2014), VW Golf (2013), VW Up (2012), Nis­s­an Leaf (2011), VW Polo (2010), VW Golf (2009), Mazda 2/​Mazda Dem­io (2008), Lex­us LS460 (2007), BMW 3-serí­an (2006) og Audi A6 (2005).

http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/04/14/c_class_heimsbill_arsins_2015/