Fara í efni

Brimborg sendibílaleiga skiptir alfarið í rafsendibíla

Fréttir

Brimborg sendibílaleiga skiptir alfarið í rafsendibíla

Til að mæta vaxandi eftirspurn eftir umhverfisvænni samgöngum hefur Thrifty, sendibílaleiga Brimborgar, tekið stórt skref í átt að sjálfbærari framtíð í samræmi við umhverfisstefnu Brimborgar, Visthæf skref. Brimborg hefur skipt út öllum dísilsendibílum sendibílaleigunnar fyrir rafsendibíla. Þetta táknar ekki aðeins stefnubreytingu í rekstri sendibílaleigunnar heldur einnig framfarir í átt að sjálfbærari samgöngum á Íslandi.

Útskiptin hófust í nóvember á síðasta ári og er nú lokið. Breytingunni hefur verið einstaklega vel tekið af viðskiptavinum sendibílaleigunnar, enda er mjög þægilegt að keyra lágværa, mengunarlausa og lipra rafsendibílana sem Thrifty býður upp á með fríu rafmagni. Með þessari nálgun er lagður grunnur að grænni og hreinni framtíð, þar sem sjálfbærni og umhverfisvernd eru í forgrunni allra ákvarðana.

Áframhaldandi sjálfbærniskuldbinding

Framkvæmdin endurspeglar djúpstæða skuldbindingu Brimborgar við umhverfisstefnu sína, Visthæf skref, sem miðar meðal annars að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að hreinni og grænni framtíð fyrir alla. Með leigu á stórum eða smáum rafsendibílum gefst viðskiptavinum kostur á að njóta þæginda og hagkvæmni rafsendibíla án dísilbrennslu, sótmengunar og losunar gróðurhúsalofttegunda.

Sveigjanleg leiga og frítt rafmagn

Viðskiptavinir geta sem áður leigt rafsendibíla á einfaldan hátt á vefnum í 2-24 tíma. Hvort sem er fyrir stuttar sendiferðir innan borgarinnar eða lengri ferðir. Með staðsetningu hraðhleðslustöðva víða um landið er aldrei langt í næstu hleðslu og á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ hafa viðskiptavinir aðgang að öflugu hraðhleðsluneti Brimborgar Bílorku án endurgjalds. Einnig má nefna að ekki er þörf á að hlaða bíl áður en honum er skilað.

Sjálfbærnivegferð Brimborgar

Brimborg er þekkt fyrir að vera í fararbroddi þegar kemur að umhverfisvernd og sjálfbærni í bílgreininni. Með áherslu á grænar lausnir og nýsköpun í öllum sínum rekstri, stefnir Brimborg að því að vera fyrirmynd í umhverfismálum og stuðla að sjálfbærri þróun samfélagsins.