Fara í efni

Borgarholtsskóli 20 ára

Fréttir

Síðastliðinn fimmtudag, 13. október hélt Borgarholtsskóli uppá 20 ára afmæli skólans en skólinn var settur í fyrsta sinn 2.september árið 1996 og voru nemendur þá 400 talsins. Í dag stunda um 1400 nemendur nám við skólann.  Frá stofnun skólans hefur verið lögð rík áhersla á að Borgarholtsskóli sé fyrir alla með það að markmiði að sinna þörfum samfélags og einstaklinga sem best. Hlúð hefur verið að nýjum vaxtasprotum í skólastarfinu í góðri samvinnu við atvinnulífið og aðra hagsmunaaðila. Blómleg uppbygging nýrra verk- og starfsnámsbrauta ber þess glöggt vitni að þörfin fyrir nýbreytni og framfarir er mikil.

Borgarholtsskóli er móðurskóli fyrir bílgreinina og býður skólinn uppá nám í bifvélavirkjun, bílamálun og bílasmíði. Er það eitt af stærstu hagsmunamálum fyrir bílgreinina að boðið sé uppá gott og vandað nám í bílgreinum við fyrsta flokks aðstæður. Er það því gríðarlega mikilvægt að aðilar í bílgreininni styðji við skólann eins og kostur er svo skólinn geti sinnt sínu hlutverki af kostgæfni.

Í tilefni 20 ára afmælis skólans gaf Bílgreinasambandið skólanum kr. 1.000.000,- sem nota á til kaupa á tækjabúnaði sem nýtist við kennslu á bílgreinasviði. Einnig fékk skólinn veglega gjöf frá Heklu hf.eða sveiflusjá og svo mun Hekla afhenda skólanum tvo bíla sem munu verða notaðir til kennslu á næstu vikum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Ársæl Guðmundsson skólameistara taka við gjöfinni af Özuri Lárussyni framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins.