Vonir bílaumboðsins BL standa til þess að nýr valkostur í fjármögnun bílakaupa hvetji fólk í bílahugleiðingum til kaupa á nýjum bíl.
BL, sem er með umboð fyrir Land Rover, BMW, Hyundai, Renault, Nissan, Subaru, Isuzu og Dacia, hefur hafið að bjóða ný vaxta- og kostnaðarlaus lán til kaupa á nýjum bílum. Lánin geta að hámarki numið 40 prósentum af andvirði nýs bíls. Kosti bíll 3,9 milljónir króna, má gefa sér að á þremur árum sparist 280 þúsund krónur sem annars hefðu farið í vexti og kostnað.
„Við teljum að þessi nýi hagstæði lánamöguleiki sé mjög stórt og mikilvægt skref í þá átt að auðvelda okkar viðskiptavinum að kaupa nýjan bíl,“ segir Loftur Ágústsson, markaðsstjóri BL. „Við vitum að stór hluti viðskiptavina sem leita til okkar á orðið verulega upphæð í gamla bílnum sínum en veigrar sér samt við að skoða möguleikann á að kaupa nýjan bíl vegna kostnaðar við þau lán sem hafa verið í boði.“
Hann segir að með nýjum vaxta- og kostnaðarlausum lánum sé óvissuþátturinn fjarlægð úr dæminu og viðskiptavinurinn þurfi bara að átta sig á hvaða upphæð hann geti greitt á mánuði. Hún haldist síðan föst og óbreytt út allan lánstímann.
„Bílafloti landsmanna er að eldast hraðar en æskilegt er og margir viðskiptavinir orðnir þreyttir á viðhaldskostnaði við eldri bíla sem komnir eru úr ábyrgð. Við teljum að með þessum nýja lánamöguleika opnist tækifæri fyrir marga að skoða sín bílamál að nýju og jafnvel endurnýja yfir í nýjan sparneytnari bíl í ábyrgð,“ segir Loftur.
Sala á nýjum bílum hefur ekki verið upp á marga fiska frá hruni en forsvarsmenn BL telja að fyrr eða síðar þurfi að liðka til svo venjulegt fólk geti nýtt sé þá kosti sem nýir bílar hafa umfram gamla bíla.
„Það hafa orðið ótrúlegar framfarir í nýtingu eldsneytis í nýjum bílum á síðustu árum auk þess sem flestir nýir bílar eru núna búnir nýjasta öryggisbúnaði sem völ er á svo sem stöðugleikastýringu og fjölda öryggisloftpúða sem verja farþega ef til óhapps kemur,“ segir Loftur, en eldsneytisnotkun algengs bíls af árgerð 2005 getur verið allt að tvöföld samanborið við eyðslu nýs bíls í sama flokki í dag.