Fara í efni

Bílgreinasambandið og Virtus í samstarf

Fréttir

Á haustdögum lét Erna Hanna Guðjónsdóttir af störfum hjá Bílgreinasambandinu og fór á eftirlaun eftir 28 ára einkar farsælan starfsferil sem skrifstofustjóri sambandsins. Voru þá góð ráð dýr og var á endanum ákveðið að kanna möguleikann á að úthýsa hluta starfseminnar í stað þess að ráða inn nýjan starfsmann. Eftir skoðun ýmissa mismunandi möguleika var ákveðið að ganga til samninga við fyrirtækið Virtus til að sinna öllu sem tilheyrir bókhaldi, reikningagerð og launakeyrslum fyrir sambandið.

Um Virtus

Virtus hýsir fjármálatengd verkefni fyrir einstaklinga, félög, fyrirtæki og stofnanir en félagið var stofnað árið 2001 og eru viðskiptavinir þess rúmlega 300, innlendir sem erlendir. Virtus rekur eina af stærstu launadeildum landsins og reiknar og afgreiðir í hverjum mánuði tæplega tvö þúsund launaseðla og á bókhaldssviði sinnir félagið öllum mögulegum hliðum bókhalds og reikningagerðar fyrir sína viðskiptavini, sama af hvaða stærðargráðu það er. Þá er til staðar ráðgjafarsvið þar sem er veitt margþætt ráðgjöf varðandi t.d. rekstraruppgjör, stofnun félaga, gerð viðskiptaáætlana og margt fleira.

María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins

„Eftir að Hanna okkar hætti erum við aðeins tveir fastráðnir starfsmenn á skrifstofu sambandsins og meira en næg verkefni sem koma inn á borð til okkar á degi hverjum. Eftir að hafa prufað þetta fyrirkomulag núna í nokkra mánuði þá getum við ekki sagt annað en að þetta komi sér einstaklega vel fyrir okkar starfsemi. Þjónusta Virtus er góð og við finnum að það munar miklu að geta einbeitt okkur að þeim mikilvægu verkefnum sem snúa að hagsmunum bílgreinarinnar og láta Virtus um bókhaldið, reikningagerð og launavinnslu. Við erum því mjög ánægð með að hafa tekið þetta skref og hlökkum til áframhaldandi samstarfs með Virtus.“