Fara í efni

Bílgreinasambandið (BGS) sameinast Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ)

Fréttir

Auka aðalfundur Bílgreinasambandsins (BGS) var haldinn 15. febrúar sl. í þeim tilgangi að taka fyrir tillögu stjórnar sambandsins um sameiningu BGS og Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ). Stjórnir beggja samtaka höfðu áður gert samkomulag um framlagningu tillagna þess efnis á aðalfundum beggja samtaka.

Hinn 14. janúar 2021 undirrituðu stjórnir BGS og SVÞ samstarfsyfirlýsingu með það markmið að leiðarljósi að efla þjónustu við félagsmenn í samskiptum við stjórnvöld, í lögfræðilegum álitamálum og í fræðslu- og menntunarmálum ásamt því að styrkja rekstur samtakanna. Frá undirritun yfirlýsingarinnar hafa samtökin unnið saman að hagsmunamálum aðildarfyrirtækja beggja samtaka og hefur reynslan af samstarfinu í senn verið jákvæð og leitt fram víðtæk samlegðaráhrif.

Í ljósi reynslunnar af samstarfi BGS og SVÞ undanfarið ár ákváðu stjórnir samtakanna að tillaga um sameiningu yrði lögð fyrir aðalfund beggja samtaka og var hún lögð fyrir aukaaðalfund BGS í gær.

Niðurstaða fundarins var einróma samþykkt sameiningartillögunnar. Er nú beðið formlegs samþykkis aðalfundar SVÞ sem haldinn verður 17. mars nk. Verði svo mun sameining BGS og SVÞ formlega koma til framkvæmda 1. apríl nk.

Við sameininguna mun BGS verða sérgreinafélag innan SVÞ og aðildarfyrirtæki BGS verða aðildarfyrirtæki SVÞ og Samtaka atvinnulífsins. BGS mun halda sérstöðu sinni út á við og vinna áfram að sérhæfðum málefnum bílgreinarinnar en nú með mun öflugra baklandi. Mun það nýtast aðildarfélögum BGS á margvíslegan hátt í þeim fjölbreyttu málefnum sem varða bílgreinina í heild sinni.

Stjórn BGS fagnar þessum áfanga og lítur björtum augum fram á veginn þar sem sameiningin mun efla BGS á alla vegu og leggja enn meiri kraft í vinnu að málefnum bílgreinarinnar á Íslandi.