www.mbl.is
Upplýsingar um sölu fólksbíla, sendibíla og bílaleigubíla það sem af er ári sýna m.a. fylgni í aukinni sölu til bílaleiganna samfara auknum ferðamannastraum. Þær staðfesta einnig að áætlanir um bílasölu það sem af er ári hafa haldist þrátt fyrir rysjótta tíð, einkum febrúar.
Sala í mars hefur farið vel af stað og um helgina voru t.d. þrír nýir bílar frumsýndir hjá BL við Sævarhöfða, nýr og tæknivæddur Subaru Outback, Subaru Forester sem kominn er með sjálfskiptingu við dísilvélina og Renault Megane í Limited útgáfu.
Þetta kemur fram í skýrslu frá BL bílaumboðinu um bílasöluna í heild það sem af er árinu. Þar segir, að heildarsala á nýjum fólksbílum, sendibílum og bílaleigubílum í janúar og febrúar hafi verið rúmum 27 prósentum meiri en á sama tímabili 2014 og þrátt fyrir risjótta tíð í nýliðnum febrúar hafi bílasala umboðanna verið í samræmi við væntingar.
Subaru Outback var sýnd athygli á bílasýningu hjá BL um helgina.
Subaru Outback var sýnd athygli á bílasýningu hjá BL um helgina.
„Sala bílaleigubíla virðist haldast nokkuð vel í hendur við aukningu markaðarinns og má leiða að því líkum að bílaleigurnar njóti mjög vaxandi fjölda ferðamanna yfir vetrarmánuðina.
Einstaklingar og fyrirtæki önnur en bílaleigur keyptu 506 bíla í febrúar, sem er um 28% aukning milli ára. Fólk virðist ekki hafa látið veðrið slá sig út af laginu enda hefur undanfarið verið mikið um frumsýningar á nýjum og spennandi bílum af ýmsum stærðum og gerðum. Sömu sögu er að segja af fyrirtækjum sem leita nú í auknum mæli en áður að upplýsingum um hagkvæma endurnýjun bílaflota sinna, m.a. með kaupum á rafbílum.“
Áframhaldandi sterk markaðshlutdeild
Segir ennfremur í skýrslunni að tölur sýni að BL sé með mesta markaðshlutdeild einstakra bílaumboða á landinu það sem af er ári. Annars vegar í sölu bíla til einstaklinga og fyrirtækja, eða 25,1%, og hins vegar í sölu til bílaleiga, eða 27,7%. Loks segir, að nýhafinn marsmánuður hafi farið vel af stað hjá fyrirtækinu.
Í öðru sæti í fyrrnefnda flokknum er Brimborg með 17,8% hlutdeild og Hekla í þriðja sæti með 16,8%. Í sölu til bílaleiga er Suzuki í öðru sæti með 23,8% skerf og í þriðja sæti Toyota með 14,9%.