Fara í efni

Bílasala í Evrópu jókst um 1,2% á árinu 2019

Fréttir

Bílasala í Evrópu jókst um 1,2% á árinu 2019

ACEA (European Automobile Manufacturers Association) eru samtök bílaframleiðenda í Evrópu og halda þau utan um ýmiskonar tölfræði varðandi bílaflotann, sölu nýrra bíla eftir löndum og ýmislegt fleira. Bílgreinasambandið á í nánu samstarfi við ACEA varðandi það að útvega gögn um íslenska markaðinn sem og fá frá þeim ýmsar skýrslur og tölfræði um restina af Evrópu. ACEA hefur nú gefið út sölutölur fyrir fólksbíla í Evrópu í desember 2019 og þar með liggja einnig fyrir niðurstöður fyrir árið í heild sinni.

Líkt og hér á landi þá byrjaði bílasalan í Evrópu hægt á síðasta ári en fór hinsvegar heldur batnandi á síðustu mánuðum ársins miðað við sömu mánuði árið á undan. Þannig varð 14,5% aukning í september, 9,7% í október, 4,9% í nóvember og svo 21,7% í desember - en þess má til gamans geta að söluaukning á Íslandi í desember var nákvæmlega sú sama. Í heildina endaði árið 2019 í Evrópu með 1,2% aukningu og er talan sú sama óháð því hvort horft er eingöngu til Evrópusambandsins eða til alls Evrópska efnahagssvæðisins.

Aðrir áhugaverðir punktar úr tölum ACEA:
Litháen var hástökkvari ársins með 43,2% söluaukningu. Þar á eftir var Rúmenía með 23,4% aukningu og síðan Ungverjaland með 15,6% aukningu.
Í Skandinavíu varð allt frá 5,2% samdrætti á milli ára í Finnlandi til 3,3% söluaukningar í Danmörku. Salan í Noregi dróst saman um 3,8% en jókst um 0,7% í Svíþjóð.
Hvað 5 stærstu markaðssvæðin í Evrópu varðar þá varð 5,0% aukning í Þýskalandi, sem er stærsti einstaki bílamarkaðurinn í Evrópu. Einnig varð aukning í Frakklandi upp á 1,9% og 0,3% aukning á Ítalíu. Það varð hinsvegar 2,4% samdráttur í Bretlandi og 4,8% samdráttur á Spáni.

Markaður fyrir nýja bíla í Evrópu er stór enda seldust í fyrra um 15,8 milljónir nýrra fólksbíla á Evrópska efnahagssvæðinu og taldi heildar fólksbílaflotinn um 326,9 milljónir bíla. Það gefur því auga leið að íslenski markaðurinn er aðeins lítill hluti af Evrópska markaðnum með rétt um 11.700 nýja bíla selda í fyrra og heildar flota upp á tæplega 270.000 fólksbíla.

Sala nýrra fólksbíla innan ESB 2019 borið saman við 2018

Bílasala innan ESB 2019