Fara í efni

Bílasala á fyrstu sex mánuðum ársins eykst um rúmlega 30%.

Fréttir


Á fyrstu sex mánuðum ársins hefur bílasala á Íslandi aukist um rúmlega 30%.  Alls hafa verið skráðir 7.120 fólksbílar sem eru 1.646 fleiri fólksbílar en skráðir voru á sama tímabili í fyrra.   Á öllu árinu 2013 voru skráðir allt árið rétt tæplega 7.300 bifreiðar, þannig að gera má ráð fyrir því að í ágústmánuði verði búið að skrá jafn margar nýjar bifreiðar og allt árið 2013. „Bílasala hefur tekið hressilega við sér, og á það jafnt við um fólksbíla, atvinnubíla og vörubíla. Bílaleigur eiga þó mestan þátt í þessari aukningu í fólksbílasölunni, en rétt rúmlega 4.000 bílaleigubílar hafa verið skráðir á árinu. Sala til einstaklinga og fyrirtækja er þó meiri en hún var í fyrra og um 3.000 bílar hafar verið seldir til þeirra en það er um 15% aukning frá fyrra ári, það er ágætt en meira þarf til að eðlileg endurnýjun flotans eigi sér stað.“  – segir Jón Trausti Ólafsson formaður Bílgreinasambandsins.

„Stöðugra gengi krónu og óhagstæð aldursamsetning flotans eru þeir þættir sem helst knýja þetta áfram að mínu mati.  Það er mikill ávinningur í því að reka nýjan bíl samanborið við 10-15 ára bíla, en meðalaldur bíla á Íslandi er 12 ár.  Eyðslan hefur lækkað mjög hratt en að meðaltali eyðir nýskráðir bíll á Íslandi á þessu ári 5,4 lítrum að meðaltali á hundraðið á meðan nýskráður bíll árið 2002 eyddi að meðaltali tæpum níu lítrum á hundraðið.“  Segir Jón Trausti.

„Annar þáttur sem skiptir miklu máli er öryggið en í dag eru langflestir bílar búnir öryggisbúnaði eins og stöðugleikastýringu, 5 þriggja punkta öryggisbeltum, loftpúðum í hliðum, þráðlausum símabúnaði og fleira. Vörugjöld eru í dag þannig að þau verðlauna bíla sem eru með lága eyðslu og lægra Co2 útblástursgildi og því er verið að beina flotanum í þá áttina.  Við hjá Bílgreinasambandinu teljum mikilvægt að tollar á öryggisbúnaði séu lækkaðir svo sem á varahlutum eins og bremsubúnaði, hjólbörðum og slíkum búnaði sem tryggir að nauðsynlegt viðhald geti átt sér stað, á þessum gamla flota sem hér er á götunum. Þá er mikilvægt að stuðningur við rafbílavæðingu haldi áfram á meðan tæknin er í þróun og uppbygging innviða rafbílavæðingar eigi sér stað.  Það er mjög kostnaðarsamt að kynna rafbíla til leiks bæði í tækni, búnaði og innri strúktur. Þess vegna viljum við að áframhaldandi stuðningur við rafbílavæðingu eigi sér stað, svo sem með niðurfellingu vörugjalda, virðisaukaskatts og fleiri þátta. Í mörgum löndum koma einnig til frekari greiðslur frá stjórnvöldum sem styðja við vistvænar samgöngur“.