Fara í efni

BGS á faraldsfæti.

Fréttir
Frá fyrri deginum á ársfundi Cecra.
Frá fyrri deginum á ársfundi Cecra.

Eftir mjög góða og fræðandi ferð á bílasýninguna í Frankfurt um miðjan mánuðinn tók næsta ferðalag við hjá fulltrúum Bílgreinasambandsins í síðustu viku. Í þetta skiptið var haldið á ársfund CECRA.

Bílgreinasambandið er virkur félagi í CECRA, en það eru regnhlífarsamtök ýmissa samtaka í Evrópu sem tengjast bílgreininni með einum eða öðrum hætti. Á ensku kallast samtökin „The European Council for Motor Trades and Repairs“ og eins og nafnið gefur til kynna þá vinna þau að hagsmunum og framgangi bílgreinarinnar í heild sinni í Evrópu – allt frá sölu nýrra og notaðra bíla til þjónustu og viðgerða.

Ársfundurinn var haldinn í Brussel þar sem farið var yfir atburði og árangur síðustu missera og einnig farið vel yfir hvað er framundan, en það má með sanni segja að nú eru áhugaverðir tímar í bílgreininni um allan heim með þróun á bílvélum, aukinni áherslu á rafmagn, gagnasöfnun, og fleira. Þá var ný stjórn kosin ásamt því sem boðið var upp á ýmiskonar fræðslu og umræður um þau ýmsu málefni sem blasa við bílgreininni í dag.

Fulltrúar Bílgreinasambandsins voru sem sagt viðstödd þennan annars vel sótta fund og tóku þátt í þeim viðburðum og umræðum sem þar fóru fram. Viðfangsefnin í Evrópu eru flest eða öll þau sömu og hér á Íslandi, enda eru lög og reglur sem sett eru í Evrópu innleidd hér á endanum. Það er því augljóst ábyrgðarhlutverk Bílgreinasambandsins að taka þátt í þeirri vinnu sem á sér stað á þessum vettvangi, fyrir hönd sinna félagsmanna, og víst að það mun skila sér vel fyrir bílgreinina hér á landi í framtíðinni.