Fara í efni

Bættar upplýsingar úr ökutækjaskrá á raunverd.is

Fréttir

Bílgreinasambandið (BGS) á og rekur vefsíðuna www.raunverd.is, en hún veitir almenningi aðgang að upplýsingum úr annars vegar gagnagrunni BGS yfir raunskráningar á söluverðum notaðra bifreiða og hins vegar að upplýsingum úr ökutækjaskrá.

Hingað til hafa upplýsingar úr ökutækjaskrá verið takmarkaðar við samantekt helstu upplýsinga um þær bifreiðar sem flett er upp. Nú hefur það verið útvíkkað á þann veg að hér eftir munu allar upplýsingar bifreiða birtast, eða allt frá tæknilýsingu til eigenda-, umráða-, og skoðunarsögu. Innifelur það m.a. alla skráða eigendur/umráðamenn sem og skráða kílómetrastöðu bifreiða við hverja skoðun (hafi bifreiðin náð þeim aldri að hafa farið í skoðun), og fleira.

Virkni síðunnar er með þeim hætti að hver sem er getur nýskráð sig sem notanda með rafrænum skilríkjum og kostar það ekki neitt. Eftir innskráningu geta notendur keypt sér inneign skv. verðskrá og þá flett upp í raunverðsskrá og/eða ökutækjaskrá í eitt eða fleiri skipti eftir upphæð inneignarinnar sem hefur verið keypt.

Vonir BGS standa til þess að þessi nýjung auðveldi almenningi aðgengi að upplýsingum úr ökutækjaskrá, og hvetji til skoðunar þessara upplýsinga. Uppflettingar á síðunni eiga við um allar bifreiðar og gagnast þetta því ekki eingöngu við skoðun á eigin ökutækjum, heldur einnig við skoðun á ökutækjum sem einstaklingar hafa mögulega hug á að kaupa eða þurfa upplýsingar um af öðrum ástæðum.