Fara í efni

Aukin bílasala drifin áfram af sölu til einstaklinga og fyrirtækja

Fréttir

,,Það eru mörg jákvæð teikn á lofti þótt bílgreinin, eins og mörg atvinnustarfsemi í landinu, hafi siglt í gegnum ólgusjó. Á fyrstu þremur mánuðum ársins varð um það bil 20% söluaukning á nýjum bílum sem eru gleðitíðindi. Það merkilegasta er að þessi aukna sala er að miklu leyti drifin áfram af sölu til einstaklinga og fyrirtækja, því hlutfall bílaleigu er ekki nema fjórðungur af þessari sölu,“ sagði Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins, á ársfundi sambandsins sem haldinn var á Hótel Natura í gær. Alls voru seldir 1.574 fólksbílar á fyrstu 3 mánuðum ársins. Þá hafa á þriðja hundrað sendi- og vörubílar verið skráðir á fyrstu þremur mánuðum ársins og er það hátt í tvöföldun á sölu miðað við sama tíma í fyrra.

Jón Trausti sagði að bílafloti landsmanna hafi elst hratt síðustu ár. Svo hratt að í dag er hann einn elsti bílafloti Evrópu og er meðalaldur skráðra fólksbíla á Íslandi hátt í 13 ár. ,,Bílafloti Íslendinga er ein af helstu fjárfestingum þjóðarinnar og það er mikilvægt að almenningur og fyrirtæki njóti þeirra framfara sem átt hefur sér stað undanfarin ár í bílum, sem skilar sér meðal annars í lægri eldsneytis-  og rekstrarkostnaði, umtalsvert meira umferðaröryggi og miklu mun umhverfismildari valkostum, svo nokkuð sé nefnt.“ 

,,Við viljum að þjóðin hafi tækifæri til að viðhalda þessari fjárfestingu með eðlilegri endurnýjun og þurfa stjórnvöld að sjá til þess að stöðugleiki ríki í kringum umhverfi bílgreinarinnar. Skattheimta þarf að vera eðlileg og í takt við það sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þá þarf að tryggja að vörugjöld af öryggisbúnaði bifreiða séu í lágmarki svo almenningur veigri sér ekki við nauðsynlegt viðhald á búnaði sem hefur úrslitavald þegar mest á reynir. Ein af þeim leiðum sem við höfum bent stjórnvöldum á er að styðja við förgun eldri bifreiða með því að hækka skilagjald sem er endurgreitt er þegar bílum er fargað í endurvinnslustöðvum, slíkt átak mun hafa jákvæð áhrif,“ sagði Jón Trausti ennfremur.
 
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var gestur fundarins og sagði að stjórnvöld þyrftu að taka margt til skoðunar í því sem formaður Bílgreinsambandsins nefndi. Bjarni sagði í ræðu sinni að umhverfið hefði verið mjög krefjandi fyrir bílgreinina. Nauðsynlegt væri að tryggja jafnvægi á endursölumarkaði og þörf væri á að huga að auknu menntunarstigi og endurmenntun innan bílgreinarinnar.

Fram kom á ársfundinum að miðað við framleiðsluuppgjör Hagstofu Íslands var meðaltal bílgreina frá 1997-2012 rúm 1,3% landsframleiðslu. Við þann mikla samdrátt sem varð í bílgreinum 2008, í kjölfar kreppunnar, drógust bílgreinar saman um tvo þriðju hluta frá fyrra ári, úr 1,5% í 0,5%. Frá árinu 2008 hefur umfang bílgreina vaxið þó nokkuð á nýjan leik en hlutfall þeirra var 1,2% af landsframleiðslu árið 2012.  

Stjórn Bílgreinsambandsins skipa Jón Trausti Ólafsson, formaður frá Öskju, Skúli Skúlasson frá BL, Lárus Blöndal Sigurðsson frá Bílanaust, Haraldur Þór Stefánsson frá Toyota, Einar Sigurðsson frá Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur, Sverrir Gunnarsson frá Nýsprautun og Steingrímur Birgisson frá Höldur.  Varamenn voru kosnir Benedikt Eyjólfsson frá Bílabúð