Fara í efni

Athugasemdir BGS við frumvarp til laga.

Fréttir

Bílgreinasambandið sendir inn athugasemdir við drögum að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skattaívilnanir vegna vistvænna ökutækja o.fl..  Mál nr. 272/2019.

Bílgreinasambandið lítur á þær breytingar sem koma fram í umræddu frumvarpi jákvæðum augum og tekur undir að um þörf skref sé að ræða til að flýta fyrir og auðvelda orkuskipti í samgöngum.

Áhættusamt að afnema ívilninar á tengiltvinnbíla

Að þessu sögðu þá telur Bílgreinasambandið hins vegar mikilvægt að gera ákveðnar breytingar á frumvarpinu. Í drögunum er lagt til að takmörkun á fjölda rafbíla og vetnisbíla verði 15.000 ökutæki af hvorri tegund og virðisaukaívilnun framlengist til 31.12.2023. Á sama tíma er lagt til að  takmörk á fjölda tengiltvinnbíla verði aðeins 12.500 ökutæki og að virðisaukaskattsívilnun fyrir þá falli niður eftir 31. desember 2020.

Í tillögunni segir að slíkar bifreiðar eigi að vera orðnar samkeppnishæfar í verði á þessum tíma og þurfi því ekki ívilnanir til lengri tíma en til loka ársins 2020. Þetta er ekki rétt því þessar bifreiðar eru enn dýrari í innkaupum og líklegt að svo verði áfram því mikil þróun er enn á tækni tengiltvinnbíla þar sem m.a. drægni á hreinu rafmagni er að aukast. Drægni tengiltvinnbíla er að aukast og var skráð oftast milli 20-30 km samkvæmt evrópsku aksturslotunni (NEDC) en er að fara yfir í 50-96 km samkvæmt samræmdu prófunaraðferðinni (WLTP). Með þessu er raundrægni þessara ökutækja að meir en tvöfaldast og hafa þessi ökutæki því enn meira vægi í því að ná niður heildarútblæstri í samgöngum. Í dag er virðisaukaskattsívilnun fyrir tengiltvinnbíla að hámarki 960.000 krónur. Ef ívilnanir verða felldar niður er ljóst að margir af þeim tengiltvinnbílum sem eru í boði á markaðinum munu hækka sem þessari krónutölu nemur.

Bílgreinasambandið telur því ráðlegra að ívilnanir tengiltvinnbíla verði áfram til staðar til ársins 2023 og að hámarksfjöldi bíla í þeim flokki verði að minnsta kosti færður í 15.000 í samræmi við fjöldatakmarkanir rafmangs- og vetnisbíla. Árið 2018 voru seldir tæplega 2000 tengiltvinnbílar og þar sem mikil áhersla er í frumvarpinu að liðka fyrir kaupum bílaleiga á vistvænum bílum er líklegt að þær muni auka kaup á tengiltvinnbílum og því má gera ráð fyrir að þessi fjöldatakmörkun verði fljót uppurin.

Í þessu samhengi er rétt að nefna að íbúar landsbyggðarinnar eiga oft erfiðara með að kaupa sér hreina rafbíla þar sem drægni er enn ekki orðin nægjanleg til að fullnægja þörfum þeirra. Tengiltvinnbílar henta einstaklega vel á landsbyggðinni því þar geta þeir nýst 100% á rafmagni innanbæjar en nýtast að auki vel  í langkeyrslur.

Innleiðing nýorkubíla hefur gengið vel hér á landi og ein ástæða þess eru ívilnanir stjórnvalda sem hvetja til kaupa á slíkri bifreið. Þrátt fyrir að sala nýorkubíla gangi vel fyrir sig hér á Íslandi þá eru einungis 5,5% skráðra fólksbíla nýorkubílar í dag samanborið við 15,4% skráðra fólksbíla í Noregi. Þegar horft er til Þýskalands sem selt hefur flesta tengjanlega rafbíla á árinu 2019 og hefur tekið fram úr Noregi hvað magn varðar, þá tóku stjórnvöld þar í landi nú í nóvember ákvörðun um að auka ívilnanir, ekki einungis til hreinna rafbíla heldur einnig tengiltvinnbíla til að hraða orkuskiptum í landinu. Ívilnanir tengiltvinnbíla í Þýskalandi voru 3.000 evrur en hækkuðu við þetta upp í 4.500 evrur. Markmið stjórnvalda samkvæmt aðgerðaráætlun í loftslagsmálum er að 100.000 skráðir rafbílar eða önnur vistvæn ökutæki séu á götunni árið 2030 og því er mikilvægt að tryggja að ekki komi bakslag í þann góða gang sem er í sölu tengiltvinnbíla í dag. Bílgreinasambandið telur að stjórnvöld þurfi að stíga varlega til jarðar þegar kemur að því að afnema ívilnanir á tengiltvinnbíla þar sem slíkt mun hægja á rafbílavæðingu þjóðarinnar.

Að þessu sögðu þá vill Bílgreinasambandið einnig koma á framfæri öðrum þáttum sem þarf að huga að í heildarmyndinni þegar minnka á útblástur frá samgöngum.

Umtal um að banna nýskráningar bensín- og dísilbíla hefur gert það að verkum að hægt hefur verulega á sölu nýrra bíla knúna jarðefnaeldsneyti. Gríðarlegur árangur hefur náðst í að draga úr eyðslu og mengun hefðbundinna bensín- og dísilvéla á síðustu árum og því er endurnýjun eldri slíkra bíla yfir í nýja ekki neikvæð heldur hefur hún mikil áhrif á heildarlosun bílaflotans til lækkunar. Árið 2010 var meðaltalslosun nýskráðra bíla á landinu það ár um 175 gr. CO2/km. Árið 2018 var þessi tala um 130 gr. CO2/km. Útskýringin á þessari miklu lækkun er ekki eingöngu skráningum rafmagns- og tengiltvinnbíla að þakka, þar sem skráning þeirra er enn í miklum minnihluta í heildarfjölda skráninga. Þetta er fyrst og fremst bættum mengunargildum hefðbundinna bensín- og dísilbíla að þakka.

Í dag er meðal CO2 losunargildi alls bílaflota landsins eins og hann stendur í kringum 160 gr. CO2/km. Samkvæmt nýjum CAFE reglugerð sem tekur gildi 2021 með aðlögun 2020 verða settar strangari kröfur af Evrópusambandinu, verða nýskráðir bílar að uppfylla meðaltalslosun 95 gr. CO2/km. Þetta samsvarar 4,1 l/100 km fyrir bensínbíla og 3,6 l/100 fyrir dísilbíla. Það er því ljóst að það mundi nást mikill árangur í að lækka meðal losunargildið hér á landi með því að ýta ekki eingöngu undir skipti yfir í hreina rafmagnsbíla heldur einnig undir endurnýjun yfir í nýja bíla almennt, þar með talið hefðbundna bensín- og dísilbíla.

Þrátt fyrir að förgun gamalla bíla hafi náð ákveðnu hámarki á síðasta ári í fjölda, þá var meðalaldur fargaðra bíla engu að síður mjög hár sögulega séð. Það gefur til kynna að það er til staðar tækifæri í því að ýta enn frekar undir förgun gamalla bíla með há mengunargildi, t.d. með tímabundinni ívilnun í formi hærri greiðslna til þeirra sem farga bílum sem nýtist þá mögulega upp í kaup á nýjum eða nýlegri bílum með lægri mengunargildi. Meðalaldur fólksbílaflotans á Íslandi var um 12,3 ár í fyrra (sem var hækkun frá fyrri árum), sem er svipað og víða í Austur-Evrópu en ekki í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Meðalaldurinn í Evrópusambandinu var 10,5 ár.