Fara í efni

Árbók bílgreina 2020 er komin út

Fréttir
Árbók bílgreina 2020 er komin út
Árbók bílgreina 2020 er komin út

Bílgreinasambandið, í samstarfi við Rannsóknarsetur verslunarinnar á Bifröst, hefur á hverju ári frá og með 2014 gefið út svokallaða Árbók bílgreina. Hún hefur að geyma allar helstu hagtölur um bílgreinina ásamt tölfræði um bílamarkaðinn, orkugjafa, skráningatölur bifreiða og ýmislegt fleira.

Nálgast má árbókina í heild sinni á stafrænu formi með því að smella á myndina hér til hliðar.

Meðal helstu punkta úr árbókinni í ár:

 • Fyrirtækjum innan bílgreina fjölgaði töluvert á síðasta ári, eða um 45, og voru þau flest á sviði viðgerða og viðhalds.
 • Tekjur ríkissjóðs vegna bifreiðagjalda hækkuðu frá árinu áður, og hafa þar með hækkað milli ára öll síðustu 10 árin.
 • Vanrækslugjöld sem lögð eru á bíleigendur sem trassa að fara með bíla sína í skoðun lækka á milli ára, sem bendir til þess að almenningur hafi verið samviskusamari við að láta skoða bíla sína.
 • Færri bílar voru nýskráðir í fyrra en árið áður, eða um 35% færri. Hafa ber þó í huga að árin á undan voru stór bílasöluár og því viðbúið að það yrði fækkun.
 • Heildar ökutækjafloti landsins stækkaði í fyrra og hefur þ.a.l. stækkað samfellt síðustu 10 árin. Heildafjöldi skráðra ökutækja nam 385.448 ökutækjum. Fjölgunin frá 2011 nemur 86.750 ökutækjum en á sama tíma hefur fólki með fasta búsetu hér á landi fjölgað um 45.682. Hefur því bílaflotinn stækkað hraðar en fólksfjöldinn.
 • Í takt við síðustu ár þá mynduðu gráir og hvítir bílar mikinn meirihluta nýskráninga í fyrra, en rauður þar á eftir. Þó má til gamans geta að 2 bleikir bílar voru skráðir.
 • Norðurland eystra átti metið í nýskráningum bíla í fyrra þegar það er umreiknað niður á bílafjölda per 1000 íbúa, eða 64 bíla per 1000 íbúa. Þar á eftir koma Surðurnesin og svo Höfuðborgarsvæðið.
 • Meðalaldur bílaflotans hækkar á milli ára, eða úr 12,4 í 12,7 ár sé horft til allra bíla á landinu. Sé eingöngu horft til þeirra bíla sem skráðir eru í umferð lækkar talan nokkuð eða í 9,86 ár og lækkaði sú tala reyndar á milli ára úr 9,91.
 • Útblástursgildi nýskráðra bíla í fyrra var á pari við það sem var 2018, en þá hafði það lækkað stöðugt síðustu 10 árin. Meðaltalið árið 2010 var í kringum 175 gr. CO2 en var í fyrra um 129 gr. CO2, sem sýnir vel þann árangur sem bílaframleiðendur hafa náð í að draga úr útblæstri og mengun nýrra bíla.
 • Rafhleðslustöðvum fjölgaði töluvert á milli ára og voru 140 hleðslustöðvar í rekstri við lok árs 2019.
 • Aðsókn í nám í bílgreinum hélt áfram að vera góð, en áhugi á slíku námi hefur aukist á síðustu árum með aukinni tæknivæðingu greinarinnar og starfanna sem henni tengjast.