Frétt af mbl.is
Það hjálpaði Suzuki í gegnum erfiðustu árin á íslenska bílamarkaðinum að geta boðið upp á mjög sparneytna bíla á þægilegu verði. „Við komumst í gegnum kreppuna án þess að fara í einhverja kollsteypu og þar af leiðandi erum við þeim mun betur í stakk búin að koma sterk inn á markaðinn núna þegar hrunið er að baki,“ segir Úlfar Hinriksson, forstjóri Suzuki-umboðsins.
Ekki hefur heldur skemmt fyrir að bílaleigurnar hafa mikið sótt í að kaupa Suzuki-bíla í flotann sinn. „Þar munar sennilega mest um að Suzuki-bílar hafa reynst vera með litla bilanatíðni. Bæði Swiftinn og Grand Vitara hafa verið vinsælir bílaleigubílar.“
Almenni bílakaupandinn kominn aftur af stað
Úlfar segir söluna hjá Suzuki hafa aukist um á bilinu 30-40% það sem af er þessu ári. Þá virðist salan vera að taka á sig breytta mynd því hinn venjulegi neytandi er farinn að láta meira að sér kveða. „Undanfarin ár hafa bílaleigurnar leikið stórt hlutverk á íslenska bílamarkaðinum en núna upplifi ég það að hinn almenni bílakaupandi er aftur kominn af stað. Skiptingin var áður þannig að 60-80% af sölunni voru til bílaleignanna en í dag held ég að hlutfallið sé komið niður í 50%.“
Ætti heldur ekki að spilla fyrir sölunni að Suzuki hefur verið að kynna áhugaverða bíla til sögunnar á undanförnum misserum. „Stutt er síðan hulunni var svipt af nýjum Suzuki Vitara sem tekur við af gamla Grand Vitara, en sá bíll hefur verið söluhæsti jeppi landsins í áraraðir. Hefur nýr Vitara fengið geipilega góðar viðtökur bæði hérna heima og raunar alls staðar annars staðar svo að verksmiðjurnar anna ekki eftirspurn í augnablikinu.“
Suzuki endurlífgaði á dögunum gamla línu, Baleno. „Suzuki Baleno er væntanlegur í vor og er um að ræða millistærðarbíll, einu númeri stærri en Swiftinn, rúmgóðan fjölskyldubíl og ótrúlega sparneytinn, þökk sé nýrri kynslóð bensínvéla með forþjöppu.“
Halda tryggð við merkið
Hver veit svo nema góð frammistaða Suzuki á árunum eftir hrun muni verða til þess að styrkja stöðu merkisins á íslenska markaðinum til lengri tíma litið. Úlfar segir nefnilega að margir haldi tryggð við Suzuki eftir að hafa kynnst bílunum. „Það eru margar Suzuki-fjölskyldur til á Íslandi, sem hafa keypt Suzuki í áratugi og færist tryggðin við merkið áfram til nýju kynslóðanna. Þetta er fólk sem kann að meta að þetta eru bílar sem eru léttir á fóðrum og með lága bilanatíðni. Við höfum kannski ekki alltaf verið með nýtískulegasta útlitið, en frekar reitt okkur á það gamla góða.“
Sem dæmi um íhaldssemina nefnir Úlfar smájeppann Jimny. Eru mjög skiptar skoðanir um útlit bílsins en samt heldur hann sínu striki, ár eftir ár. „Þetta er bíll sem hefur verið framleiddur nær óbreyttur í 40 ár. Ekki er verið að gera bílinn flóknari en hann þarf að vera og er útkoman frábær ferðabíll fyrir tvo, bæði sparneytinn og sterkur.“
Of mikið hrært í gjöldunum
Hvað snýr að umgjörðinni sem stjórnvöld skapa bílasölu hefur Úlfar helst yfir því að kvarta hversu oft eru gerðar breytingar á gjaldaumhverfinu. „Það er mjög slæmt ef verið er að hræra mikið í gjöldum á bílum, og það jafnvel ár frá ári. Áhrifin eru ekki bara á sölu nýrra bíla, heldur smitast yfir í sölu notaðra bíla líka. Nú síðast var verið að kynna hugmyndir um róttækar breytingar á gjöldum sem lögð eru á bílaleigubíla,“ segir Úlfar. „Þessar tíðu breytingar gera allt skipulag mun erfiðara, en æskilegast væri að finna endanlega lausn og leyfa svo verslun með ökutæki að vera í friði.“
Nú þegar efnahagslífið er farið að taka við sér á ný gæti líka annað breyst: litirnir á bílunum. Úlfar segir gráa litinn hafa verið allsráðandi undanfarin ár, enda praktískur litur sem þolir að óhreinkast af rykinu og tjörunni á íslenskum vegum. „Ég held að hinn almenni kaupandi sé að verða búinn að fá nóg af þessari einhæfni og spái því að við förum að sjá meira af litum á götunum. Til marks um litagleðina sjáum við tvílita bíla vekja lukku, eins og Suzuki Vitara sem er fáanlegur með hvítu eða svörtu þaki.“
Mótorhjólin 1-2 árum á eftir
Þegar skrifað er um Suzuki má ekki gleyma að fjalla um mótorhjólin. Reglulega líta þar dagsins ljós ný og rennileg módel, hvort sem menn vilja frekar vígalegan Intruder, þeysast um á Hayabúsu eða fjárfesta í Burgman-vespu til að skjótast milli staða.Úlfar segir mótorhjólasöluna ekki enn hafa náð sér á strik eftir hrunið, en það sé í samræmi við það sem gerist yfirleitt eftir niðursveiflu. „Þetta er ekki fyrsta kreppan sem ég upplifi, hafandi starfað í þessum bransa í 40 ár. Fyrst fara bílarnir af stað og svo einu til tveimur árum síðar fer sala á mótorhjólum að glæðast á ný.“ ai@mbl.is
http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/09/29/anna_ekki_eftirspurn_eftir_vitara/