Síðasta haust hóf Toyota á Íslandi að bjóða kaupendum nýrra Toyota-bíla að fá svokallaða Toyota Protect hlífðaráferð á bílinn og er hún seld sem aukahlutur á hvern bíl fyrir sig.
Um er að ræða sérstaklega slitsterka tveggja þátta filmu sem hlífir bílnum öllum gegn vegaóhreinindum, fugladriti og öðru sem verra þykir að fá á fallegan bíl. Má segja að þar liggi ákveðin sérstaða hvað þetta varðar því áferðin er ekki eingöngu borin á lakk bílsins heldur bókstaflega á allan bílinn.
Lausn til langs tíma
„Ef þú ætlar að fá nýjan bíl afhentan á miðvikudegi þá þarf ég bara að fá bílinn í hendur daginn áður,“ útskýrir Haukur Jóhannsson sem starfar hjá standsetningu nýrra bíla hjá Toyota við Kauptún. „Í raun er þetta ekki nema fárra klukkustunda verk þannig að í raun er hægt að afhenda bílinn samdægurs. Við förum þó yfirleitt fram á að fólk gefi okkur daginn til að afgreiða málið með þrifum, standsetningu og öllu saman,“ enda vissara að fara sér að engu óðslega þegar um vörn er að ræða sem hugsuð er til jafn langs tíma og raun ber vitni. Toyota tiltekur nefnilega að ein umferð af Protect-efninu veiti fimm ára vörn en Haukur segir það eiga meira inni en svo.„Ef þú setur Toyota Protect á nýjan bíl þá er um að ræða vörn sem á að endast út endingartíma bílsins.“
Allur bíllinn hjúpaður
Eins og framar greindi er Protect ólíkt hlífðarbóni að því leytinu til að efnið er ekki eingöngu borið á lakkið heldur á allan bílinn. „Áferðin fer yfir ljós, yfir allt plast, alla glugga og gluggalista, rúðuþurrkuarmana og hvaðeina. Hlífðarfilman hjúpar í raun allan bílinn,“ bætir Haukur við.
Að hans sögn er Protect á engan hátt í líkingu við bón. Um leið bendir hann á að alls ekki megi bóna yfir hlífðarfilmuna þegar hún er á annað borð komin á. „Það er alveg bannað að bóna yfir Protect-áferðina og við mælum ekki með því að nota neina kústa til að þrífa bílinn. Þetta er ekki þannig efni að það komi alfarið í veg fyrir að þú getir rispað bílinn,“ segir Haukur. „Þess í stað myndi ég mæla með að hver og einn þvoi bílinn sinn með svampi og vaxlausri sápu, það er mjög mikilvægt. Það má alls ekki vera neitt sem heitir vax í sápunni. Enda áttu aldrei að þurfa að bóna eða bera neitt vax á bílinn þegar Protect-filman er komin á. Þetta á að duga jafn lengi og bíllinn. Efnið þarf bara að setja einu sinni á og svo aldrei aftur.“
Sífellt vinsælli valkostur
Toyota Protect nýtur stöðugt vaxandi vinsælda meðal kaupenda nýrra bíla að sögn Páls Þorsteinssonar, upplýsingafulltrúa Toyota á Íslandi. „Við höfum ekki auglýst þetta neitt að ráði en Protect hefur verið að spyrjast vel út enda reynslan mjög góð,“ bendir hann á. Páll bætir því við að nú sé Toyota Protect keypt á hátt í helming allra nýrra bíla hjá Toyota. „Bæði hlífir filman lakkinu og gerir öll þrif miklu léttari. Viðloðun óhreininda við bílinn er lágmörkuð og því sest sama og ekkert á bílinn. Því litla sem kann að setjast á bílinn er þeim mun auðveldara að ná af því drullan binst einfaldlega ekki við yfirborðið.“ Spurður um verðið segir Páll það mismunandi eftir stærð bílsins. „Fyrir smærri bíla á borð við Aygo og Yaris kostar filman 48.000 kr. Fyrir Auris, Corolla, Avensis, Prius og RAV4: 61.000 kr. Á Land Cruiser 150 og Hilux 72.000 kr. og er þá átt við óbreytta bíla. Loks er verðið fyrir Land Cruiser 200, Proace og breytta jeppar 80.000 kr.“
Fáanlegt fyrir allan bílinn
Eins og Haukur bendir á er hægt að fá Protect-filmu á fleira en ytra byrði bílsins og nefnir hann þar til að byrja með Fabric Protector. „Það er borið á sætisáklæðið og teppin í bílnum og þá myndar efnið blettavörn fyrir efnið. Ef eitthvað á borð við kókómjólk hellist niður myndar vökvinn bara poll á yfirborðinu því filman hleypir engu í gegn. Þá þarf bara að strjúka vökvann burt. Þá má líka fá filmu á felgurnar og þolir hún 600°C hita. Að sama skapi festist ekkert á felgunum og gula bremsudrullan sem á það til að festast á þeim verður aldrei meiri eða fastari en svo það það sé ekki hægt að þurrka hana burt með bréfi. Efnið er borið á og þarf ekki einu sinni að þurrka yfir.“
jonagnar@mbl.is