Fara í efni

Aðalfundur BGS 2020 fór fram 4. júní

Fréttir
Sigurður Ingi Jóhannsson var fyrstur á dagskrá aðalfundar
Sigurður Ingi Jóhannsson var fyrstur á dagskrá aðalfundar

Aðalfundur Bílgreinasambandsins fór fram fimmtudaginn 4. júní síðastliðinn í Húsi atvinnulífsins. Fundurinn var vel sóttur og því þétt setið.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa þá voru tveir gestir sem fluttu tvö mjög svo áhugaverð erindi. Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra var fyrstur á dagskrá með sitt erindi og svaraði svo spurningum félagsmanna í kjölfarið þar sem sköpuðust líflegar umræður. Þá kom að aðalfundarstörfum þar sem m.a. voru kynntar lagabreytingar sem kosið var um ásamt því sem kosið var inn í stjórn af þjónustusviði þar sem voru 4 frambjóðendur, en af sölusviði og í varastjórn var sjálfkjörið. Í lok fundar hélt svo Sigurjón N. Kjærnested erindi um rannsókn Samorku hér á landi vegna rafmagnsbíla og hleðsluhegðun rafmagnsbílaeigenda. Er sú rannsókn virkilega áhugaverð fyrir bílgreinina enda um viðamikla innlenda rannsókn að ræða. Um frumniðurstöður var að ræða þar sem endanlegar niðurstöður munu ekki liggja fyrir fyrr en í september á þessu ári.

Breytingar urðu á stjórn sambandsins sem skipar nú 6 menn auk tveggja varamanna. Í stjórn Bílgreinasambandsins sitja nú fyrir hönd sölusviðs Bjarni Benediktsson frá Víkurvögnum, Egill Jóhannsson frá Brimborg og Heiðar J. Sveinsson frá BL. Fyrir hönd þjónustusviðs sitja Áskell Þór Gíslason frá Höldi, Einar Sverrir Sigurðsson frá Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur og Jóhannes Jóhannesson frá Íslensk-Bandaríska. Varamenn eru Benedikt Eyjólfsson frá Bílabúð Benna og Elísabet Jónsdóttir frá Löður.

Bílgreinasambandið býður nýja stjórnarmenn velkomna til starfa og þakkar jafnframt Baldri Davíðssyni frá Armi, Guðmundi Inga Skúlasyni frá Kistufelli og Skúla K. Skúlasyni frá BL fyrir frábært samstarf síðustu ár. Þá vill Bílgreinasambandið sérstaklega þakka Jóni Trausta Ólafssyni, fráfarandi formanni, innilegar þakkir fyrir mikilvægt og óeigingjarnt starf í þágu bílgreinarinnar síðastliðin 7 ár sem formaður. Breytingar voru gerðar á lögum félagsins á aðalfundi nú og fallið frá því fyrirkomulagi að hafa sérstakan formann stjórnar.

Líkt og síðustu ár kom Árbók bílgreina út í tilefni aðalfundar þar sem farið er yfir helstu hagtölur um íslenskar bílgreinar og teknar saman ýmsar áhugaverðar tölur og staðreyndir. Árbókin er nú einnig komin út á rafrænu formi og má finna hér á heimasíðu Bílgreinasambandsins.