Stjórn Bílgreinasambandsins var endurkjörin á vel heppnuðum aðalfundi Bílgreinasambandsins er haldin var s.l. fimmtudag. Í stjórn eru Jón Trausti Ólafsson framkvæmdastjóri Öskju sem jafnframt er formaður, Skúli K. Skúlason, framkvæmdastjóri hjá BL, Sverrir Gunnarsson, frá Nýsprautun, Lárus Sigurðsson, forstjóri Bílanaust, Einar Sigurðsson frá Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur, Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, og Friðbert Friðbertsson, forstjóri Heklu. Varamenn eru Atli Vilhjálmsson frá Betri bílum og Benedikt Eyjólfsson frá Bílabúð Benna.
Fundurinn hófst á málstofu þar sem Gísli Hauksson, forstjóri Gamma, Steingrímur Birgisson forstjóri Hölds og Jóhann Ingi Gunnarsson sálfræðingur héldu fróðleg og uppbyggileg erindi. Gísli Hauksson fjallaði um fjárfestingaþörf í samgöngumannvirkjum. Gísli sagði meðal annars að mjög mikið vantaði upp á fjárfestingar í samgöngumannvirkjum á Íslandi. Gísli sagði ennfremur að miklir fjármunir töpuðust árlega vegna ágangs á þau samgöngumannvirki sem fyrir eru vegna aukinnar umferðar og það væri mjög mikilvægt að endurnýja og bæta við samgöngumannvirkjum. Hann sagði afar brýnt að ráðast í gerð Sundabrautar og tvöföldunar í Hvalfjarðargöngunum.
Að loknum fundi var boðið uppá léttar veitingar þar sem menn náðu að ræða málin og treysta böndin.