Fara í efni

Á leið til framtíðar: Markviss uppbygging hleðsluinnviða fyrir þungaflutninga.

Fréttir

Reykjavík, 13. nóvember 2024 – Í gær stóð Bílgreinasambandið fyrir málstofu í Húsi atvinnulífsins undir yfirskriftinni „Á leið til framtíðar: Markviss uppbygging hleðsluinnviða fyrir þungaflutninga.“ Á viðburðinum kom saman breiður hópur sérfræðinga, stjórnvalda og hagsmunaaðila sem ræddu um nauðsynlega innviðauppbyggingu til að hraða orkuskiptum í samgöngum. Áhersla var lögð á mikilvægi þess að Ísland stuðli að markvissri uppbyggingu hleðsluinnviða fyrir rafknúna flutningabíla.

Opnun málstofunnar var í höndum Enord sem fór yfir og lagði línurnar á hvað skýr stefna og markmið, ívilnanir og samstarf atvinnulífs og stjórnvalda væri mikilvægt til að hefja vegferð sem þessa. ChargeUp Europe lagði áherslu á að til að gera hleðsluinnviðum kleift að verða arðbærir án opinbers stuðnings til lengri tíma litið með því að bæta heildarkostnað við eignarhald á rafknúnum flutningabílum, m.a. með lægri tollum, sköttum, gjöldum og orkureikningum og á sama tíma þarf að tryggja að hagsmunaaðilar séu virkir þátttakendur í áætlanagerð og framkvæmd. Það kom jafnframt fram í þeirra kynningu að langstærstur hluti hreinorkubíla sem teknir verða í notkun næstu árin verði rafmagnsbílar.

Þá fóru sérfræðingar frá Veitum og Rarik yfir þær áskoranir sem fyrirtækin standa frammi fyrir til að verða við eftirspurn markaðarins. Milence fór yfir framtíðarplön fyrirtækisins þegar kemur að uppbyggingu og rekstri helsðsluinnviða sem mæta þörfum stórflutningabíla, með áherslu á langtímalausnir sem stuðla að sjálfbærni og hagkvæmni í samgöngugeiranum. Vegagerðin fór yfir samstarf þeirra með sambærilegum norrænum stofnunum, þar sem reynslu af uppbyggingu og þróun hleðsluinnviða fyrir þyngri ökutæki er deilt og þeim megin hafsins er hafin þessi vegferð með því að setja framtíðarmarkmið og stefnur saman. Orkustofnun fór yfir þrjá meginstólpa í uppbyggingunni, þ.e. áfyllingu, fjárstuðning og regluverkið.

Í lok málstofunnar fóru fram pallborðsumræður þar sem áhersla var lögð á að virkja stjórnvöld til að bregðast hratt við og tryggja langtímastefnu fyrir hleðsluinnviði. Helstu niðurstöður umræðunnar voru tvíþættar:

  1. Þörfin fyrir skýra stefnu: Viðburðurinn undirstrikaði mikilvægi þess að stjórnvöld setji fram heildstæða stefnu um hraðhleðsluinnviði, sérstaklega fyrir flutningabíla og rútur, til að tryggja skýrleika og stefnumótandi sýn til framtíðar.
  2. Áskoranir og tækifæri við uppbyggingu innviða: Þátttakendur bentu á að umfang verkefnisins væri verulegt og kalli á samstillt átak allra hagsmunaaðila, þar á meðal einkaaðila og hins opinbera, til að ná árangri í orkuskiptum samgangna

„Við verðum að ráðast í uppbyggingu hleðsluinnviða af krafti til að gera rafknúna flutninga að raunhæfum möguleika á Íslandi,“ sagði María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins. „Með því að grípa til markvissra aðgerða núna leggjum við grunninn að framtíðarlausnum í íslenskum samgöngum.“

Þátttakendur voru sammála um að samvinna milli stjórnvalda, fyrirtækja og annarra hagsmunaaðila væri lykilatriði til að ná þessum markmiðum og tryggja að rafknúnir flutningabílar og rútur verði raunhæfur kostur á Íslandi.